08.02.2020
Dregið hefur úr skjálftavirkni í grennd við Grindavík undanfarna daga. Enn mælast þó smáskjálftar á svæðinu.
Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist áfram með virkni á svæðinu.
Frá 21. janúar hafa yfir 1500 skjálftar verið staðsettir á svæðinu og eru þeir flestir staðsettir í SV/NA stefnu um 2 km NA af Grindavík.
Vísbendingar eru um breytt mynstur í jarðskorpuhreyfingum, en enn má sjá merki um áframhaldandi landris. Í heildina hefur land risið yfir 5 cm frá 20. janúar sl. Gervitunglamyndir sýna sömu þróun. Með landrisi má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni.
Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-5 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Líklegast er að virknin ljúki án eldsumbrota. Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður haldinn fimmtudaginn 13. febrúar þar sem farið verður yfir stöðuna við Grindavík.
Skrifað af vakthafandi jarðvísindamanni 07. feb. 14:40
Greint er frá þessu á vef veðurstofu Íslands vedur.is