28.12.2020
Bekkjarsysturnar Guðrún og Jóhanna María eiga saman fyrirtækið Bókhald og aðrar lausnir og hófu samstarf síðastliðið sumar. „Við vorum saman í bekk hjá Þórarni kennara frá 7 ára til 13 ára. ÞM bekkurinn var mjög samheldinn og eins árgangurinn líka. Við hittumst t.d. alltaf aðfararnótt mánudagsins á miðri brúnni á hverri þjóðhátið,“ segja þær.
Guðrún er fædd og uppalin í Eyjum, dóttir Axels Ó. og Döddu skó í Skóbúðinni. Guðrún er viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík einnig með diplóma í fjármálum og rekstri frá Endurmenntun HÍ.
Jóhanna María flutti til Eyja eftir gos og er dóttir Barböru í Sparisjóðnum og Pálma í Geisla. Jóhanna María er viðskiptafræðingur, með MBA, Master í alþjóðlegum fjármálum og bankarekstri og Master í reikningshaldi og endurskoðun.
„Skemmtilegt að segja frá því að þegar við vorum 21 árs ákváðum við að stofna saman fyrirtæki. Núna, örfáum árum seinna, þroskaðri og reynslunni ríkari komum við saman og rekum fyrirtækið Bókhald og aðrar lausnir. Það er eins og undirmeðvitundin hafi leitt okkur áfram og leitt okkur svo saman. Sú reynsla sem við höfum aflað okkur á síðustu árum kemur sér vel og smellpassar við þær áherslur sem við leggjum á í þjónustu okkar. Vorum tvær í sumar og erum orðin fjögur núna og erum að vinna að því að bæta við einum starfsmanni, jafnvel tveim.
Eftir að hafa skannað innlenda markaðinn ákváðum við að gerast endursölu- og þjónustuaðilar Uniconta, en það kerfi varð fyrir valinu vegna þess hve auðvelt er að ná fram upplýsingum úr kerfinu. Einnig eru bókararnir okkar mun fljótari að vinna á það. Kerfið er mjög einfalt en það býður upp á að útbúa og hanna sérsniðnar skýrslur, t.d. tímaskýrslur eða reikninga að þörfum hvers og eins.“
Hvað gerir ykkur sértaka, er bókhald ekki bara bókhald?
„Bókhald getur verið bara bókhald en þegar þú ert með kerfi í höndunum sem er svo vel hannað að hægt er að fá allt út úr því og lesa nánast allt inn í það breytist allt. Við leggjum áherslu á að veita góða þjónustu lesa vel reksturinn og hvað hann þarf. Við auðveldum viðskiptavininum að fá allt sem hann þarf með einum takka. Það þýðir að við pössum upp á að allt sé fært sem næst rauntíma svo upplýsingarnar séu nákvæmar og hægt að nýta við ákvarðanatöku.
Við leggjum mikla áherslu á umhverfisvænt bókhald. Það tilheyrir fortíðinni að viðskiptavinurinn mæti til okkar með möppur, sumir komu með bókhaldið í plastpoka. Hjá okkur eru engar geymslur fyrir bókhaldsmöppur. Ef við miðum þetta við gamla tíma þegar reikningar voru prentaðir út, settir í póst, afhentir í póstkassann hjá viðtakanda sem þurfti þá að opna póstkassann, taka við umslaginu, slá inn upplýsingarnar, merkja reikninginn, gata hann, setja hann í möppu og geyma möppuna í sjö ár. Allt það ferli er nánast úr sögunni, þetta er gríðarlegur vinnu- og tímasparnaður.
Allt rafrænt
Reikningar eru sendir rafrænt inn í kerfið og alltaf hægt að kalla þá fram og skoða. Ef viðskiptavinir senda alla reikninga jafnóðum í kerfið þá er VSK uppgjör yfirleitt tilbúið tveimur til fjórum vikum fyrir greiðsludag. Kerfið er með netfang sem hægt er að senda reikninga í og geta lánadrottnar líka sent beint inn í kerfið.
Kerfinu fylgir líka app þar sem viðkomandi getur tekið mynd af kvittun og sent í kerfið, en hann geymir svo kvittunina hjá sér, hún þarf ekki að koma til okkar. Það er líka hægt að útbúa reikning í appinu og senda til viðskiptavina. Mjög hentugt, t.d fyrir verktaka. Einnig er boðið upp á ljóslestur, sendingu og móttöku rafrænna reikninga. Við að sjálfvirknivæða ferlana þá er kerfið ekki einungis orðið rafrænt heldur líka stafrænt.
Viðskipavinurinn velur kerfið
Við leggjum áherslu á að kenna notendum á kerfið, kennum að nýta það. Kennum einnig bókhald fyrir þá sem vilja læra að halda utan um reksturinn sjálfir. Höfum reynslu af greiningarvinnu og komum við mjög sterkar inn við að aðstoða viðskiptavini við að nýta upplýsingar í rekstri. Kerfið er ódýrt í rekstri, sumir viðskiptavinir okkar fá okkur til að sjá um allt fyrir sig meðan aðrir fá okkur í að gera ársuppgjör og skattframtöl. Bókararnir okkar vinna ekki einungis á Uniconta heldur líka á DK, Reglu, Payday, Nav, Ax, við leggjum áherslu á það að það er viðskiptavinurinn sem velur kerfið ekki bókarinn.
Við bjóðum upp á hefðbundna þjónustu eins og flestar bókhaldsstofur. Bjóðum einnig upp á rekstrarráðgjöf, leigjum út fjármálastjóra, innri endurskoðanda og fleira. Vinnum einnig í að greina rafræna viðskiptaferla með kerfi sem heitir Minit. Aðstoðum fyrirtæki við að koma upp hjá sér áhættu-, fylgni og innri endurskoðunarkerfi frá Galvanize. Sú vinna er í samstarfi Bizcon, sem er danskt ráðgjafafyrirtæki.
Þrátt fyrir að við séum nýbyrjaðar er þetta farið að spyrjast út og fáum oft að heyra; „ekki vissi ég að það væri hægt að fá alla þessa þjónustu á einum stað“. Við erum núna staðsettar í Hlíðarsmára 14 en vorum beðnar um að koma með fyrirtækið okkar í Grósku með Fjártæknaklassanum, þeir heyrðu af okkur og fannst okkar félag smellpassa þarna inn.
Eru þið með með Eyjafólk í viðskiptum?
Já. Við erum með nokkra, viljum fá sem flesta þaðan. Í dag skiptir ekki máli hvar bókarinn er. Við erum með smá aðstöðu í Eyjum ef fólk vill hitta okkur. Við höldum alltaf tryggð við Vestmannaeyjar, að sjálfsögðu er okkar viðskiptabanki í Eyjum, þar fáum við bestu þjónustuna hjá Viggu í Íslandsbanka,“ segja þær Guðrún og Jóhanna María að endingu.