08.04.2020
Jóhann Guðjónsson, fyrrum útgerðarmaður og skipstjóri á Þristi VE hefur augun hjá sér þegar undur náttúrunnar eru annars vegar. Ekki síst á vorin þegar farfuglarnir koma til landsins eftir langt og strangt flug yfir hafið.
Nokkuð er síðan hann sá fyrstu tjaldana en nú er komið að lóunni sem komin er til Eyja að kveða burt snjóinn. Í dag sá Jói nokkrar lóur suður á eyju sem hann segir þær fyrstu sem hann kemur auga á þetta vorið.
,,Nú fer vorið að koma með betri tíð. Lóan er til vitnis um það,‘‘ sagði Jói sem eins og aðrir Íslenndingar fagnar komu lóunnar.
Mikið hefur verið um farfugla hér á Heimaey þessa vikuna, gæsir og álftir og líka hafa þær flogið hér yfir í sína tignarlega oddaflugi.
Forsíðumynd Helgi R Tórzhamar