Jóhann Guðjónsson, heiðursmaður oft kenndur við Þrist VE sem hann átti og stýrði hér á árum áður er enn á útkíkinu þó ekki sé í gegnum brúargluggann á Þristinum
Hann fer um alla eyju á bílnum með kíki og fylgist með furðum og undrum náttúrunnar.
Þar eru fuglar ofarlega á listanum. Í dag sá hann fyrstu lóurnar á þessu vori suður á eyju, alls fimm stykki. Tvær voru á túninu vestan við Lyngfell og þrjár sunnan við. „Ég komst mjög nálægt þeim og sá þær greinilega. Lóan er heldur fyrr á ferðinni núna en í fyrra þegar ég sá þær fyrstu áttunda apríl. Það er ansi kalt á þær núna en vonandi fer fljótlega að hlýna,“ sagði Jóhann.
„Lóan er vorboðinn okkar og það gleður fólk að heyra að hún sé komin. Ég fór líka inn í Dal og þar sá ég fleiri tjalda á einum stað en ég hef séð áður. Kannski eru þeir að leita í skjólið fyrir kaldri norðan áttinni,“ bætti hann við.