10.04.2020
Páskarnir þetta árið verða með öðru sniði eða hvað?
Venjulega þegar við hugsum um páska hugsum við um frí, súkkulaðiegg, kökur og mat, páskaskraut og ferðalög. Páskaegg minnir á nýtt líf, vorkomu og hafa egg í gegnum tíðina verið tákn um frjósemi og endurfæðingu. Í gegnum aldirnar voru páskaegg máluð hænuegg. Súkkulaðiegg hafa verið alsráðandi í seinni tíð. Á Íslandi tíðkast súkkulaðiegg fyllt sælgæti og málsháttur þykir ómissandi.
Páskar eru á mismunandi tíma svo munað getur fjórum vikum – Í vestrænni kristni geta páskar allra fyrst verið 22. mars og seinast 25. apríl. Þeir eru haldnir fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir vorjafndægur. Orðið páskar er ættað úr hebresku (pesah) og merkir framhjáganga. Páskarnir voru haldnir til minningar um frelsun Ísraelsmanna frá Egyptalandi.
Í seinustu köflum guðspjallanna fjögurra má lesa um innihald daganna; pálmasunnudags, skírdags, föstudagsins langa og páskadags. Mér finnst gaman að lesa textana og bera saman sjónarhorn höfundanna, margt sameiginlegt en einnig nokkur atriði sem eru ólík. Það er ekki í boði að fara í messur eða samkomur núna en við getum lesið og hugleitt boðskapinn heima.
Fyrir rúmum fjörutíu árum vorum við hjónin stödd á Péturstorgi í Róm að hlusta á páskaboðskap páfa ásamt tugum þúsunda annarra. Þar var gleðistemning, fólk með blöðrur og sölubásar opnir. Okkur varð hugsað til Íslands þar sem allt var lokað og meiri alvarleiki. En á þeim tíma var allt lokað á föstudeginum langa og páskadegi.
Bernskuminningar mínar eru um að fara til messu á páskadagsmorgni og síðan í bíltúr og borða nesti utan við bæinn, ég minnist ferskra og fallegra vormorgna. Það að fara í kirkju á páskadagsmorgni er sérstakt, vakna og minnast morgunsins þar sem konurnar komu að vitja grafarinnar og Jesús var horfinn, þrátt fyrir gæslu hermanna. Konurnar voru mjög hissa – Hann er upprisinn og þegar upprisan er íhuguð er hún eitt mesta undur og kraftverk sögunnar og hornsteinn boðskapar kristinnar trúar. Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Ég vona og bið þess að vonin sem við eigum í upprisunni verði okkur hvatning um betri tíma framundan.
Ég hef verið um páska í England og farið með vinum mínum í kirkju á páskadegi. Þar heilsaði fólk hvert öðru með kveðjunni He is risen / Hann er upprisinn. Það var svo fallegt og persónulegt að fá þessa kveðju, sérstaklega frá fólki sem ég þekkti ekki.
Hann er upprisinn. Gleðilega páska!
– Þóranna Sigurbergsdóttir