Föstudagur 1. desember 2023

Völvuleiðin í Ofanleitistúni

Völvur á Íslandi er ein af þeim bókum sem Hólar gefa út fyrir þessi jól. Hún er eftir Sigurð Ægisson, guðfræðing og þjóðfræðing, og er rúmlega 400 blaðsíður að stærð. Þar er m.a. fjallað um á sjöunda tug völvuleiða, sem finna má heimildir um víða um land. Þar á meðal er Ofanleiti í Vestmannaeyjum. 

Sigurður Ægisson, prestur og þjóðfræðingur.

 

Hér er brot úr þeim kafla:

Árni Óla (1888–1979) birtir í riti sínu, Álög og bannhelgi, sem kom út 1968, tvær frásagnir um völvuleiðin í Ofanleitistúni í Vestmannaeyjum. Sú fyrri er höfð eftir Sigurði J. Árness (1878–1968), fræðimanni og ættfræðingi, 1959. Þar segir: „Í Ofanleitistúni voru þrjár stórar þúfur, sem kallaðar voru Unurnar. Sagnir hermdu að þar hvíldu þrjár völvur og voru tvær þeirra nefndar Una eldri og Una yngri, en önnur deili vita menn ekki á þeim. Þessi völvuleiði voru friðhelg, mátti hvorki slá þau né raska á neinn hátt. Prestur var á

Ofanleiti í Vestmannaeyjum á seinni hluta átjándu aldar, sá er Ari [Guðlaugsson] [1740–1809] hét. Hjá honum var vinnumaður frændi hans, er hét Edenhans [ekki vitað um fæðingar- eða dánarár], en oftast kallaður Hans. Var hann um tvítugt að aldri. Séra Ari þótti enginn búskaparmaður. Samt tók hann eitt sinn rögg á sig og bað Hans að slétta þýfið norðan við bæinn og fékk honum ljá og reku. Þetta var eina rekan á bænum og

alltaf notuð í fjósi, svo að hvorki mun hún hafa verið bitur né þrifaleg, en skaftið á henni var nærri greipardigurt. Hans varð lítt hrifinn af að vinna slíkt verk með slíkum áhöldum. Tók hann þó við þeim og gekk norður fyrir bæinn. Þar var þúfnareitur mikill.

Þar sér Hans þrjár þúfur, sem bera af öllum um stærð. Þykir honum það bezt til frásagnar að hann ráðist á þessar þúfur. Gengur hann svo upp á eina þeirra og stingur þar niður skóflunni og hakkaði lengi á henni, því að bæði var grassvörðurinn seigur og rekan bitlaus, sem vænta mátti. Varð Hans þá heitt í skapi og bölvaði hann í sand og ösku, en slíku var hann ekki vanur. Að lokum tókst honum þó að stinga skóflublaðinu á kaf í þúfuna og ætlaði síðan að kippa henni að sér. En í sama bili fannst honum þrifið í herðar sínar eins og ætti að hnykkja sér aftur á bak. Hann hélt þá dauðahaldi í skófluskaftið, en svo voru átökin mikil, að skófluskaftið brotnaði um þvert, en hann hentist flatur aftur á bak og prjónaði þar fótum. Í sama bili ber prest þar að og sér hann hvernig komið var. Þá segir hann: „Ég gleymdi alveg að minnast á það við þig að hrófla ekki við þessum stóru þúfum. Þetta eru völvuleiði. Hér undir hvíla þrjár vitrar konur, sem vissu fyrir örlög manna, og það er harðbannað að hrófla við leiðum þeirra. Við skulum nú ná upp skóflublaðinu og fylla upp í rekufarið, og vona svo að fleira illt hljótist ekki af þessu.“ Í Krukksspá er getið um völvuleiðin í Ofanleitistúni og sagt að það geti haft hinar hræðilegustu afleiðingar ef við þeim sé hróflað. Þetta mun prestur hafa heyrt, því að það var á hvers manns vitorði í Vestmannaeyjum, en hann kom í veg fyrir það á þann hátt sem hér segir.“

Sigurgeir Jónsson (1942–), fyrrverandi kennari og blaðamaður, segir í ritinu Vestmannaeyjar — af fólki og fuglum og ýmsu fleiru, sem kom út árið 2020: „[N]yrst í Ofanleitistúninu, ekki langt frá veginum, [var] að finna svonefnt völvuleiði og var sterklega varað við að hrófla við því. Til eru sögur um prest sem ekki fór að þeim ráðum, lét slá leiðið og farnaðist illa, bæði hrundi hjá honum búpeningur og eins varð heimilisfólk hans fyrir óþægindum vegna þessa. Páll H. Árnason [1906–1991], sem var síðasti ábúandi í Þorlaugargerði vestra, nytjaði Ofanleitistúnið um margra ára skeið og sló aldrei þennan blett, bar virðingu fyrir gömlum sögnum og venjum og storkaði ekki örlögunum að óþörfu.

Nokkru eftir gos mun völvuleiðið gamla hafa verið jafnað við jörðu í jarðvinnu sem unnin var af gröfumanni sem ekkert vissi um staðhætti. Ekki mun honum hafa orðið meint af en vissulega er það leiðinlegt þegar sögulegar minjar, á borð við gamalt völvuleiði, eru þurrkaðar út, þó svo að um óviljaverk sé að ræða.“

Í bréfi, sem Árni Johnsen (1944–2023) ritaði mér 14. ágúst 1989, sagði meðal annars: „Völvuleiðið í Ofanleitistúni er álagablettur. Þegar það var slegið eða nærri því

höggvið á einhvern hátt kom eitthvað fyrir á prestssetrinu. Ég tel mjög mikilvægt að vernda þetta Völvuleiði, sérstaklega með tilliti til þess að nú fer fram einhverskonar búskapur á Ofanleitisjörðinni, anda- og kanínurækt og mig grunar að höggvið hafi verið nærri Völvuleiðinu. Sá er stundar þessa rækt kom að máli við mig fyrir fáum dögum og spurði mig hvort ég vissi um staðsetninguna, því honum þótti furðulegt að steypumót höfðu sprungið hjá honum og slíkt hafði aldrei skeð hjá honum sem trésmíðameistara í 25 ár. Mótin voru í Ofanleitistúninu og hafði hann jafnvel grun um að Völvuleiðið væri nú innan andagirðingarinnar.“

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is