Miðvikudagur 17. júlí 2024

Vöknuðum við sprengingar og háværar sírenur

Natali Osons er frá Kiev Úkraínu en hún býr ásamt manninum sínum Martynovskyi Viacheslav í Vestmannaeyjum. Hún er með meistarapróf í sálfræði en þegar hún var í náminu uppgötvaði hún ljósmyndun og starfar í dag sem ljósmyndari,  myndbands-
hönnuður fyrir auglýsingar og vörumerki og efnishöfundur  fyrir samfélagsmiðla.

„Eftir meistaranámið áttaði ég mig á því að ég vildi eyða ævinni í að einbeita mér að ljósmyndun og byrjaði að vinna sem ljósmyndari á dagblaði. Eftir nokkurra ára vinnu við ljósmyndun, opnaði ég mína eigin vinnustofu. Á sama tíma var ég líka með mörg verkefni hjátímaritum og stórum vörumerkjum og stór fyrirtæki sem birtu myndirnar mínar eins og Samsung, Apple, Nivea, Nikon, Ray-Ban, Forbes og fleiri. Eftir 5 ára ljósmyndun náði ég tökum á myndbandstöku og byrjaði að taka upp mörg stór verkefni tengd YouTube rásum, viðtölum, viðburðum og sjónvarpi. Við hjónin vorum með lítið framleiðslufyrirtæki í Kyiv þar sem við unnum með ýmis myndbandsverkefni og beinar útsendingar fyrir Evrópumeistaramót í íþróttum.“

Hver er sagan þín? Hvenær og hvers vegna komstu til Íslands?

Þann 24. febrúar 2022 vöknuðum við fjölskyldan við sprengingar og háværar sírenur. Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna og auðvitað alla í landinu.  Samdægurs ákváðum við að yfirgefa landið til að flýja innrás Rússlands í Úkraínu. Á fyrstu dögum stríðsins var mjög erfitt að yfirgefa landið vegna biðraða við landamærin sem voru tugi kílómetra langar. Við komumst yfir landamærin eftir þrjá daga og Þýskaland var fyrsta landið sem við fórum til og dvöldum við þar í nokkurn tíma. Við höfðum tíma til að róa okkur niður og hugsa um hvað við ættum að gera næst þar sem að vissum að við værum ekki að fara að aftur tilbaka á næstunni. Ég heimsótti Ísland fyrir 6 árum síðan og varð þá ástfanginn af fallegri náttúrunni. Við eigum vini sem búa á Íslandi og tókum við þá ákvörðun að fara til Íslands. Í fyrra ferðuðumst við um allt Ísland yfir sumartímann. Ég og vinkonur mínar heimsóttum Vestmannaeyjar og líkaði okkur mjög vel við þessa fallegu eyju. Maðurinn minn fékk vinnu hér og haustið 2023 fluttum við til Vestmannaeyja.

Hvernig líkar þér í Vestmannaeyjum og hvað finnst þér skemmtilegast?

Mér finnst mikilvægt að vera nálægt náttúrunni og er hún innblástur fyrir sköpunarkrafta mína. Um helgar förum við saman og fljúgum dróna og tökum myndir og myndbönd af hvölum, lundum og loðselum. Eyjan hefur sína eigin töfra og andlega dýpt, hún er okkur svo sannarlega sérstök.

Hefur þú ferðast mikið og hver er uppáhaldsstaðurinn þinn?

Ég eyddi miklum tíma í Suðaustur-Asíu. Ég hef búið í Tælandi, Balí, Malasíu og Víetnam. Þar er mjög fallegt en Ísland er sérstakur staður fyrir mér. Falleg náttúra Íslands er líklega ein af megin ástæðum þess að ég sneri hingað aftur til Íslands. Það er meiri andleg dýpt hér en í nokkru búdda fjallamusteri í Tælandi og Balí. Við höfum heimsótt marga staði á Íslandi en það eru enn margir staðir eftir til að heimsækja. Uppáhaldsstaðir eru fossinn Gljúfrabúi, Landmannalaugar og Vestmannaeyjar.

 

Segðu okkur frá fyrstu kynnum þínum að ljósmyndun. Hvað dró þig inn í ljósmyndaheiminn?

Líklega kviknaði áhugi minn á ljósmyndun þegar ég fylgdist með pabba taka myndir og svo framkalla filmurnar í barnæsku. En ég hef verið að taka ljósmyndir síðan 2011 eða í þrettán ár.

Hver er sérstaða þín í ljósmyndun? Hvernig gætirðu lýst stílnum þínum?

Ég byrjaði að mynda fyrir módelskrifstofur, barnaveislur, brúðkaup, viðburði, tímarit og auglýsingar. Starfið hefur breyst mikið og orðið mikið faglegra í alla staði. Á þessum tíma var ég mikið að vinna við auglýsingaljósmyndun og taka myndir fyrir myndabanka.Ég býð upp á  fjölskylduljósmyndun, auglýsingamyndir fyrir veitingastaði og ýmis vörumerki. Við tökum einnig upp myndbönd fyrir auglýsingar, vörumerki, fyrir viðburði og tónleika, eins fyrir Instagram og TikTok. Ég hef þegar sinnt mörgum verkefnum með íslenskum fyrirtækjum en í Eyjum er ég núna að vinna með Gott og Slippnum veitingahúsum. Ég geri myndbönd fyrir samfélagsmiðla þeirra.

Hvaðan færðu innblástur?

Ljósmyndun er mín leið til að eiga samskipti við heiminn. Ég er innblásin af fólkinu og náttúru nniþar sem ég er hverju sinni. Ég er ánægð þegar  viðskiptavinir mínir eru ánægðir. Ljósmyndir eru mikilvægar því þær varðveita minningar og komandi kynslóðir sjá hvernig heimurinn var áður þau fæddust. Sama má segja með myndbönd, því myndbönd sýna alltaf meiri tilfinningar.

Eyðir þú miklum tíma í að vinna verkin þín? 

Ég er með margra ára reynslu á bakinu og er þetta mjög mismunandi eftir verkefnum. Það fer allt eftir vinnumagni og gerð kvikmynda. Ef þetta er andlitsmyndataka eða verkefni sem krefst mikillar sköpunar, þá getur vinnsla við eina mynd tekið frá 30 mínútum til 2 klukkustunda. Myndband tekur lengri tíma, þrisvar sinnum lengri tíma en að vinna með ljósmyndir myndi ég segja.

Hver hefur verið stærsta áskorunin þín hingað til?

Að ná því að maður sé að yfirgefa heimilið sitt fyrir fullt og allt, Úkraínu, og muna líklega aldrei snúa til baka. Þetta var erfiðasta ákvörðun sem ég hef þurft að taka í lífinu. Fjölskyldan mín bjó nálægt landamærunum að Rússlandi, í um 12 km fjarlægð. Þau fóru líka til Þýskalands eftir að hernámið og stríðið hófst. Við þurftum að skilja allt eftir. Allar ljósmyndirnar okkar af fjölskyldunni og forfeðrum urðu líka eftir. Stundum líður mér eins og að lífið mitt fram að febrúar 2022 hafi verið þurrkað út. Fyrir mér eru ljósmyndir eitt það mikilvægasta þar sem þær varðveita minningar, minningar um þína kynslóð.

Hversu gefandi er fyrir þig að vera ljósmyndari?

Að sjá glaða og ánægða viðskiptavini er mikilvægast. Oft hefur myndast vinskapur á milli okkar og viðskiptavina eða samstarfsaðila í einhverjum verkefnum.

Hvaða ráð myndir þú gefa einhverjum sem langar að verða ljósmyndari í dag?

Þú þarft að vera dugleg/duglegur að taka myndir og ekki hætta. Með reynslunni munt þú vita hvernig ljósmyndir þú vilt taka. Það þarf að prófa sig áfram og læra. 

Ef þú værir ekki ljósmyndari, hvað væriru að starfa við?

Ég hugsa að ég hefði alltaf leitað í eitthvað skapandi starf, hönnun eða álíka. En svo kannski hefði ég unnið í sérgrein minni sem sálfræðingur.

Hvert er þitt uppáhalds…

matur: Taílensk súpa Tom Kha og pasta með sjávarfangi

drykkur: Smoothie

kvikmynd: „To the Wonder“ leikstjórinn Terrence Malick

hreyfing: jóga

verkefni: «Star media» – kvikmynd fyrir leikstjóra og leikara

tónlist: Kaleo, Imagine Dragons, M83

 

Frekari upplýsingar hægt að finna:

Instagram : osonsraw

Facebook : Natali Osons

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search