Hér í Vestmannaeyjum eru rúmlega 20 manns á öllum aldri með týpu 1 af sykursýki og gæti það verið manneskjan við hliðina á þér, þetta sést ekki utan á okkur. “Í raun erum við bara venjulegt fólk með insulínið utan á okkur í staðinn fyrir í briskirtlinum”
Hver er orsökin?
Ekki er vitað í raun hvað orsakar sykursýki týpu 1 en margt bendir til að erfðir, vírusar og áföll hafi áhrif. En við vitum að sykursýki er ekki smitandi og enginn þróar með sér sykursýki af týpu 1 vegna of mikillar neyslu sykurs.
Nokkur atriði sem er gott fyrir alla að vita:
– Týpa 1 er ólæknandi, við vöxum ekki uppúr honum og það er ekkert sem við gátum gert til að koma í veg fyrir hann.
– Týpa 1 er lífshættulegur sjúkdómur. Ef við fáum ekki insulín í sprautuformi þá deyjum við.
– Týpa 1 er ekki lífstílssjúkdómur.
– Týpa 1 skiptist ekki í mörg stig og það er enginn með týpu 1 á mjög alvarlegu stigi. Allir sem eru með týpu 1 eru jafn mikið sykursjúkir.
– Enginn hreyfing, matur eða annað getur lagað týpu 1 en það er góð regla fyrir okkur að hugsa einstaklega vel um okkur og sykur, óheilbrigt samband við mat og alkóhól er ekki æskilegt. Hreyfing er líka allra meina bót. Bráðnauðsynlegt er fyrir sykursjúka að hugsa vel um fætur og hendur því að taugaskemmdir eru algengur fylgikvilli ásamt sjóndepurð (sjá nánar á
diabetis.is)
– Við höfum ekkert val og það er sárt að heyra þegar að fólk segir við okkur: Ég gæti aldrei sprautað mig svona oft! Við viljum halda lífi, það er okkar val.
Einstaklingar með sykursýki týpu 1 telja flestir kolvetnin í matnum sínum og gefa sér insulín miðað við það. Þegar að einstaklingur með týpu 1 er að borða þá ættir þú ekki að segja: “ættir þú nokkuð að vera að borða þetta?” Við megum borða ALLT eins og allir og allt er gott í hófi eins og hjá “heilbrigðum”.
5-15 stungur í fingurinn á dag til að athuga blóðsykursmagnið. Nýlega hefur komið á markað lítið tæki sem er tengt við okkur svo við þurfum ekki að stinga okkur svo oft, “sensor” kallast það tæki. Mikil bylting fyrir þá sem geta notað það.
5-10 stungur í maga/læri á dag til að gefa okkur insulín. Nú hefur komið á markað “dæla” sem er einskonar utanáliggjandi bris sem leysir sprauturnar af hólmi.
1 stunga á 3ja daga fresti í stað 5-10 stungur á dag. Mikil bylting og gleðiefni.
Við eigum misjafna daga og margt getur haft áhrif á dagana okkar þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að þið vitið að þetta er oft basl þó að líf okkar sé oftast bara mjög gott. Þetta er barátta sem við stöndum oft ein í þó við séum umvafin fjölskyldu og vinum. Enginn getur leyst okkur af. Við erum þakklát fyrir skilning sem við mætum en fræðsla fyrir alla er okkur lífsnauðsynleg.
Mikill munur er á týpu 1 og týpu 2 og er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir óskyldleika sjúkdómsins.
Einkenni týpu 1 og hættumerki blóðsykursjokks og blóðsykursfalls má finna inná www.diabetis.is
Sonja Ruiz Martinez
og Anna Ester Óttarsdóttir.