Föstudagur 23. febrúar 2024

Vinstrið er við völd

Á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi stofnaði meirihluti H- og E- lista nýtt svið í skipuriti Vestmannaeyjabæjar og setti að nýju á stöðu hafnarstjóra, stöðu sem meirihluti Sjálfstæðisflokks sameinaði við stöðu framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og sparaði sveitarfélaginu á annað hundrað milljónir. Stöðugildið mun kosta sveitarfélagið 15 milljónir árlega.

Mikil þensla í rekstri á krísutímum

Yfirvofandi loðnubrestur annað árið í röð mun skerða tekjur hafnarinnar, atvinnuleysi í Vestmannaeyjum hefur aukist um 15,6 prósent á einu ári, óvissa er með kjarasamninga og bæjarstjóri hefur óskað eftir mótvægisaðgerðum frá ríkinu vegna loðnubrests. Á sama tíma ætlar meirihluti H- og E-lista að setja á ný fjárfrek stöðugildi sem hefur farið stöðugt fjölgandi á kjörtímabilinu.

H- og E- listi fækkaði starfsmönnum á tæknisviði og jók álag á höfnina

Í minnisblaði til rökstuðnings um nýjan hafnarstjóra er talað um álag á yfirstjórnendur og að aukin verkefni hafi færst til skipstjóra Lóðsins sem áður voru á höndum skrifstofumanns Vestmannaeyjahafnar. En á síðasta ári fækkaði einmitt meirihluti H- og E-lista starfsmönnum á tæknisviði sem þar með jók álag á starfsmenn hafnarinnar og er staðan því sjálfskaparvíti.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til hagkvæmari nálgun á starfsmannavanda hafnarinnar

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að ráðið yrði í stöðugildi á framkvæmdasviði sem á eftir að auglýsa og metið hvernig sá starfsmaður drægi úr álagi á stjórnendur áður en farið yrði í stórar breytingar á skipuriti. Bæjarstjóri og mannauðsstjóri veiti sviðinu aukinn stuðning og starfslýsingar og verkskipting starfsmanna hafnarinnar tekin til endurskoðunar. Nýtt stöðugildi stjórnanda við höfnina væri ótímabært og verulega rekstraríþyngjandi. Þeirri tillögu hafnaði meirihlutinn og niðurstaðan sú að auglýst verður nýtt starf við umhverfis- og framkvæmdasvið bæjarins og nýr hafnarstjóri en þessar stöður munu kosta sveitarfélagið hátt í 30 milljónir á ári.

Fjármunum hafnarinnar betur varið til framtíðaruppbyggingar

Ef Vestmannaeyjabær ætlar að vera samkeppnisfær um að halda rekstri við vinnslu sjávarafurða í sveitarfélaginu þarf að huga alvarlega að framkvæmd og uppbyggingu stórskipahafnar, verkefni upp á marga milljarða króna. Þá er ágætt að Vestmannaeyjahöfn hafi verið jafn vel rekin og raun ber vitni og eigi uppsafnaði sjóði en verra að þeir séu nýttir sem tækifæri til að þenja út rekstur sveitarfélagins og atkvæðakaupa. Það er mun auðveldara að eyða fé en að afla þess og rekstur sveitarfélaga getur tekið kúvendingu á einu kjörtímabili.

Hefur núverandi meirihluti staðið sig vel?

Meirihluti H- og E-lista hefur gert ýmislegt vel en fyrst ber að nefna Janusarverkefnið, frábært heilsueflingarverkefni fyrir eldri borgara, annað er að samþykkja viðbyggingu við Hamarsskóla eftir tillögu frá Sjálfstæðismönnum, og svo nýtt Háskólanám í íþróttafræðum sem er spennandi skref en það sem meirihlutinn hefur staðið sig einna best í er að eyða þeim sjóðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í langan tíma að byggja upp. Vandamálið við þá aðferðafræði vinstri manna er líkt og Margaret Thatcher benti á…,,eventually you run out of other people’s money.”

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search