Laugardaginn 2. sept var haldin Víkingahátíð á Bókasafni Vestmannaeyja. Hátíðin var í raun lokapunkturinn á Sumarlestri Bókasafnsins og GRV.
Þema Sumarlestursins í ár var Víkingar og var Bókasafnið skreytt eftir því og meira að segja var smíðað lítið víkingaskip sem hægt var að leika sér í. Krakkarnir fengu lestrarhest í byrjun sumars og þar merktu þau inn á kort siglingaleið fyrir hvert skipti sem þau lásu.
Víkingarnir Ásgeir Hjaltalín og Birita í Dali komu og sungu og spiluðu á trommu, Ásgeir sýndi svo vopn og aðra muni og sagði frá þeim, Birita kenndi fólki að kríla, dregið var í happdrætti, hægt var að leysa rúnaþraut, lita víkingamyndir og gæða sér á dýrindis kleinum.
Þau börn sem voru skráð í Sumarlesturinn fengu í glaðning frá Bókasafninu og fyrir þau sem ekki komust á hátíðina þá er enn hægt að sækja sér glaðning í afgreiðslu safnsins. Krakkarnir sem tóku þátt í Sumarlestrinum lásu 367 bækur í sumar sem er glæsilegur árangur.
Þetta er í sjötta sinn sem Bókasafnið stendur fyrir Sumarlestri í þessari mynd. Valið er þema fyrir hvern Sumarlestur og hefur það heppnast vel. Krakkarnir og foreldrar þeirra hafa tekið við sér og skráning í Sumarlesturinn hefur aukist ár frá ári.