Birgir Þór Sigurjónsson og unnusta hans Hafdís Ósk Ólafsdóttir hafa verið undanfarnar vikur að vinna dag sem nótt við að koma á fót nýju fyrirtæki í Vigtarhúsinu. En þar eru þau búin að opna bakaríið Vigtin Bakhús.
Tígull tók Birgir Þór á spjallið:
Nafn: Birgir Þór Sigurjónsson
Fjölskylda: Unnusta Hafdís Ósk Ólafsdóttir, börn Hilmar Aron 8 ára og Ásta Guðrún 6 ára.
Hvenær fluttuð þið til Eyja aftur? Ég flutti með krakkana til Eyja núna í lok ágúst. Hafdís kom svo í byrjun nóvember. Við erum samt búin að vera rosa mikið í Eyjum í sumar vegna Vigtarinnar og verð ég að fá að þakka Þóru systur og hennar fjölskyldu ásamt mömmu og pabba fyrir gestrisnina og alla hjálpina. Þau hafa verið gjörsamlega ómetanleg.
Hvernig er ferillinn þinn undanfarin ár? Ég var á frystitogara 2001 og búinn að vera í eitthvað yfir 40 daga og hringdi í Einar Björn bróðir hálfgrenjandi og hann sagði mér bara að drulla mér í land og koma að vinna með sér hjá Arnóri bakara og ég stökk á það. Eftir það var ekki aftur snúið. Arnór og Helga urðu strax eins og aðrir foreldrar mínir og það voru góðir tímar þar til vandræðaunglingurinn sem vildi djamma gerði þau brjáluð missti vinnuna. Ég fór yfir í Vilberg og vann þar í einhvern tíma og fór á samning hjá Berg og Villu en ég endaði svo aftur hjá Arnóri. Ég lærði mikið af þessum meisturum. 2011 ákveð ég að flytja í bæinn og fer að vinna í Passion Reykjavík hjá Styrmi og Davíð syni Arnórs. Þar lærði ég allt annað um bakstur. Þeir voru komnir á næsta level. Svo kemur hann Elías Þór inn og fór að kenna okkur alvöru súrdeigsbakstur upp á gamla mátann og við urðum leiðandi í súrdeigsbakstri á Íslandi á þeim tíma leyfi ég mér að segja. Eftir það byrjuðu allir að gera súrdeigsbrauð. Á þessum tíma ákveður Einsi bróðir að nú verði ég að fara að drulla mér í skólann og klára það að verða fullmenntaður bakari. Með smá þrjósku ákveð ég að slá til og fara að ráðum stóra bróður og fer og útskrifast og vann líka nemakeppnina. Mér fannst þetta komið gott í Passion og þá hringir Gústi í mig og segist vilja fá mig til að opna bakarí með sér. Ég var nú hikandi við það en konan ýtti mér út í þetta og sagði mér að lifa smá og taka áhættu. Það var þess virði og upp kom bakarí sem kallast Brauð og co. Það gekk allt eins og í sögu og þar kenndi Gústi mér (sem var þá nýfluttur frá Danmörku) að notast við alvöru hráefni sem ég hafði bara aldrei heyrt um áður. Það var geggjað að hafa verið að baka í 15 ár og komast svo að því að það væri til hráefni sem er svo miklu hollara og betra en maður hafði kynnst allann þennan tíma. Ég var líka í bakaralandsliðinu og keppti í norðurlandakeppninni eitt árið. Hitti þar heimsmeistarann í baquettegerð og var með honum í mánuð og lærði mikið af honum og þjálfaði svo landsliðið í smá tíma áður en ég ákvað að koma heim til Eyja. Mér bauðst þetta geggjaða húsnæði og ákvað að slá til.
Hvernig hefur gengið að koma bakaríinu í stand? Við fengum í hendurnar alveg hrátt húsnæði þannig að það hefur gengið á ýmsu. Hefðum viljað opna fyrr en það þarf að vanda vel til verka og byggja upp góðan grunn fyrir framhaldið.
Hvað munuð þið bjóða uppá? Við munum bjóða uppá súrdeigsbrauð gerð úr lífrænu hveiti, nokkrar tegundir af samlokum, salöt og pestó. Vínarbrauð og croissant úr ekta íslensku smjöri, eitthvað gamalt og gott úr Vilberg og Arnórs bakarí og úrvals kaffi. Okkur finnst afar mikilvægt að vera dugleg að koma með nýjungar en halda í það sem að heimamenn vilja. Það er nauðsynlegt að hlusta á og verða við óskum viðskiptavina okkar.
Hvað tekur salurinn marga? Eins og er, rétt yfir 40 manns.
Hvernig verður opnunartíminn? Við munum byrja á því að opna dyrnar klukkan sex á morgnana og hafa opið til klukkan sjö á kvöldin. Svo sjáum við bara til hvort að við breytum opnunartímanum.
Hvernig gekk að safna upplýsingum um sögu Vigtarhúsins? Það gekk allt vel, en aftur á móti er erfiðara að finna lýsandi myndir. Við höldum enn í vonina að einhverstaðar leynast fallegar og lýsandi myndir af starfseminni sem átti sér stað. Því að við viljum halda í söguna og geta frætt aðkomufólk um gildi hússins.
Verður þú eini bakarinn? Nei. Hann Jónas Þór sem var að vinna með mér á sínum tíma hjá Arnóri ætlar að vera með mér. Ásamt því að ég er að þrýsta á einn kæran vin til að taka af skarið og koma að baka með okkur. Svo veit maður aldrei nema Arnór sjálfur reki nefið inn og hendi í eins og eina brauðtertu.
Verða til súrdeigsbrauð? Að sjálfsögðu verðum við með úrval af súrdeigsbrauðum.
Hvernig kaffi eruð þið með? Við erum með eðal kaffi frá Kaffitár.
Það er opið til kl 18:00 í dag hjá þeim 26.desember svo skottastu og smakkaðu ljúffengar kræsingar við mælum með því.
Nokkrir góðir hérna Birgir með heimsmeistanum í baquettegerð Forsetahjónin með landsliðinu Birgir einbeittur við baksturinn í dag Guðdómleg Pharmasan langloka Brigir Þór er alveg með þettta