Mánudagur 26. september 2022

Við verðum að standa vörð um skólann okkar

Í kjölfar viðtals við formann Nemendafélags FÍV í síðasta tölublaði Tíguls vöknuðu upp hugrenningar hjá blaðamanni Tíguls um hvernig félagslífinu var háttað á fyrstu árum Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. Það lá því beinast við að heyra í Guðbjörgu Sigurgeirsdóttur, kennara við FÍV en hún var einnig í hópi fyrstu stúdenta skólans sem útskrifaðir voru árið 1984.

Ég heiti Guðbjörg Sigurgeirsdóttir og Pétur Steingrímsson er minn maður. Sonur okkar heitir Arnar og hans kona er Minna Björk. Þau eiga Dag og Kötlu og Dagur og Svava Tara eiga strákinn Flóka. Ég er auðvitað mjög ánægð með allt þetta fólk.

Hvaða ár útskrifaðist þú og af hvaða braut?
Ég útskrifaðist 1984 af Uppeldisbraut.

Hvað voruð þið mörg sem útskrifuðust?
Við vorum tólf.

Hvað ertu menntuð í dag?
Stúdent frá FÍV, Tannsmiður frá Tannsmiðaskóla Íslands. BA í íslensku og Diplóma í kennsluréttindum frá Háskóla Íslands.

Við hvað hefur þú unnið?
Ég hef unnið við ýmis störf og ég held að það sé mjög algengt með fólk sem býr og lifir í litlu samfélagi. Ég vann auðvitað við fiskvinnslu þegar ég var unglingur og við hreinsun eftir gosið. Ég hef líka tekið að mér ýmis skrifstofustörf, ég vann t.d. hjá Sparisjóði Vestmannaeyja áður en ég ákvað að fara aftur í skóla. Eftir að ég kláraði FÍV vann ég við launaútreikninga o.fl. hjá Pálma Lór sem var með Gestgjafann og Skansinn. Ég vann auðvitað við tannsmíðar eftir að ég útskrifaðist og með fram því starfi vann ég við tímaskráningar hjá Ísfélaginu. Þegar Ómar Garðarsson, ritstjóri bauð mér vinnu á Fréttum sló ég til og vann áfram við tannsmíðar með starfinu en hætti svo því ekki var grundvöllur fyrir verkstæði hér í Eyjum þvert á spár og væntingar. Ég starfaði sem blaðamaður í tólf ár og sótti þá um starf við framhaldsskólann og er að kenna þar í dag.

Árin sem þú varst í FÍV, hvernig var félagslífið? og er það mikið breytt í dag frá því þá?
Við sem vorum eldri í nemendahópnum, tókum kannski ekki mikinn þátt í félagslífinu en ég man að það var opin vika og það þótti okkur og yngri nemendum mjög skemmtilegt. Kennarar stóðu fyrir námskeiðum í matreiðslu, bútasaumi o.fl. Ég man líka eftir frábærri skemmtun í Hallarlundi þar sem nemendur tróðu upp og maður grenjaði af hlátri.

Hvað var eftirminnilegast frá FÍV?
Það sem einkenndi kannski fyrstu árin voru eldri nemendur sem komu inn eftir að ákveðið var að bæta þriðja árinu við og svo því fjórða en þá sáu menn fram á að geta klárað stúdentinn sem var lykill að háskólanámi. Áður var framhaldsdeild við skólann sem var tvö ár. Skólinn var að stíga sín fyrstu skref sem framhaldsskóli og það var mikill metnaður hjá metnaðarfullum kennurum, mikil gróska og að ég held samheldni innan skólans.

Er eitthvað sem var í félagslífinu þegar þú varst í skólanum sem þú saknar, sem er ekki í dag?
Nei, ég get ekki metið það. Skólastarfið og félagslífið þróast og breytist eins og allt annað.

Eitthvað að lokum ?
Ég vil leggja áherslu á mikilvægi skólans í Vestmannaeyjum. Þegar skólinn fékk réttindi til að útskrifa stúdenta breytti það mjög miklu fyrir ungt fólk sem hafði hug á frekara námi. Ég vil líka benda á að nemendum sem stunda iðn- eða verknám hefur fjölgað við skólann sem er ánægjulegt. Við verðum því að standa vörð um skólann okkar því hann skiptir miklu fyrir samfélagið.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is