- Bæjarfjölmiðillinn í Vestmanneyjum -

Við höldum áfram á réttri leið

Sveitarstjórnarkosningar nálgast – það vita allir. Þá gefst okkur öllum kostur á því að velja þá einstaklinga og þá stefnu sem okkur hugnast best og við teljum til hagsbóta fyrir bæinn okkar. Við viljum öll að bærinn okkar blómstri og íbúar séu ánægðir með það hvaða stefnu bærinn tekur.

Í mínum huga á bærinn að veita öllum íbúum góða þjónustu á sama tíma og gjöldum sé stillt í hóf. Það er staðreynd að fjárhagsleg staða bæjarsjóðs er sterk og svigrúm til staðar fyrir fjárfestingu í innviðum samfélagsins. Þetta verður verk­efnið næstu árin.

Betri skólar – öflugara samfélag
Það á að vera hverju sveitarfélagi keppikefli að efla skóla og auka þjónustu við nemendur, hvar í skólakerfinu sem þeir eru. Fyrir fjórum árum var það aðalkosningaáhersla Eyjalistans að efla stoðþjónustu grunnskólans og búa svo um hnútana að allir nemendur fái notið sín í skólunum.
Undanfarin fjögur ár hefur mikill árangur náðst í þessum efnum og höfum við meðal annars hafið snemmtæka íhlutun í leik- og grunnskólum, sem miðar að því að veita nemendum þann stuðning sem þeir þurfa þannig að þeir njóti sín og nái tökum á námsefninu. Við vildum sömuleiðis tæknivæða grunnskólann og innleiða nútíma­lega kennsluhætti. Þetta hefur gengið eftir og er staðan í dag þannig að eitt tæki er á hvern nemenda í GRV. Að auki var ráðist í stórmerkilega menntarannsókn í breiðu samstarfi m.a. háskóla og atvinnulífs með það fyrir augum að auka árangur nemenda í grunnskólanum.

Næst á dagskrá Eyjalistans er að byggja upp leikskóla til framtíðar. Leikskólarnir eru fyrsta skólastigið þar sem börn fá forsmekkinn af því sem koma skal í skólakerfinu og því hlýtur það að vera okkur mikið kappsmál að faglegt starf í leikskólunum geti blómstrað og að kennarar fái tækifæri til þess að efla innra starf skólanna með þarfir nemenda að leiðarljósi.

Uppbygging þjónustuíbúða fyrir okkar besta fólk
Á fundi bæjarstjórnar þann 7. apríl sl. var samþykkt tillaga meirihluta bæjarstjórnar þess efnis að hefja þá vegferð að byggja upp nýtt hjúkrunarheimili í Vestmannaeyjum – heimilis sem uppfyllir kröfur nútímans gagnvart heimilisfólki, aðstandendum og starfsfólki.

Ég þreytist ekki á að segja að rekstur hjúkrunarheimila er nær­þjónusta sem sveitarfélögin eiga að sinna. Ömurlegt var hvernig ríkið kom fram í málaflokknum sem gerði það að verkum að fjöldi sveitarfélaga sá sér þann kostinn einan að skila rekstrinum aftur til ríkisins. Við verðum þó að vera tilbúin til þess að taka aftur við keflinu þegar ríkið tryggir þær greiðslur sem því ber að greiða með rekstrinum samkvæmt lögum.
Þá er ein af stærstu kosninga­áhersl­­­um Eyjalistans fyrir komandi kosningar uppbygging þjónustuíbúða fyrir eldra fólk og höfum við sett okkur það markmið að byggja 20 íbúðir á næstu fjórum árum. Þetta viljum við gera þar sem biðlisti er í þær íbúðir sem þegar eru til staðar og þörf vex jafnt og þétt. Okkar besta fólk sem byggði samfélagið okkar upp á skilið góða þjónustu og að geta notið ævikvöldsins með reisn.

Tökum upplýsta ákvörðun
Þann 14. maí næstkomandi veljum við fólk til þess að sitja í bæjarstjórn næstu fjögur árin. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það fólk sem velst í bæjarstjórn mun vinna að heilindum í þágu bæjarbúa enda er á öllum listum að finna gott og frambærilegt fólk sem vill vinna bænum sínum gagn.
Ég hvet alla sem á mig hlusta til þess að trúa ekki gylliboðum: Ef það hljómar of gott til að vera satt er það sennilega ósatt. Ábyrgir stjórnmálamenn lofa ekki einhverju sem þeir geta ekki staðið við. Það er mjög einfalt að slá fram dýrum kosningaloforðum, lofa öllu fögru sem oftar en ekki leiðir til þess að áhrifin verða þver öfug við það sem lofað var þegar upp er staðið. Það er mikilvægt nú sem aldrei fyrr að hugsa málin til enda og sýna ráðdeild og skynsemi.

Það er líka mikilvægt að framboðin séu heiðarleg og hlaupi ekki fram með falskar upplýsingar til þess að fegra eigin málstað. Við þurfum að koma heiðarlega fram. Við eigum að benda á eigið ágæti og þau góðu mál sem við viljum koma á dagskrá í stað þess að níða niður það sem aðrir ætla að gera.

Þetta ætlum við í Eyjalistanum að gera. Við ætlum að gera bæinn okkar enn betri.

Njáll Ragnarsson
Oddviti Eyjalistans og formaður
bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is