Staðan mjög slæm varðandi læknamönnun í Vestmannaeyjum

Hvað varðar læknamönnun hér í Vestmannaeyjum er staðan mjög slæm. Hér er einungis einn fastráðinn læknir sem tekur vaktir og einn læknir sem einungis sinnir dagvinnu, en gert er ráð fyrir fjórum stöðugildum lækna. Að mínu mati þyrftu að vera hér fimm fastráðnir læknar til að annast þá heilbrigðisþjónustu sem íbúar eiga að geta gert kröfu um,“ segir Davíð Egilsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum.

Þá séu einn til tveir læknar fengnir til verktöku í hverri viku, en um það bil helming ársins hafi verið einungis einn verktaki. Stöku vikur sé enginn.

„Þetta þýðir að sjálfsögðu mikið álag á þá lækna sem eru á staðnum á hverjum tíma, hvort sem um ræðir í dagvinnu eða á vöktum,“ segir Davíð.

Heilsugæslan í Vestmannaeyjum er ein stærsta heilsugæsla á landinu sem er ekki með aðskilda bráðamóttöku frá heilsugæslunni, og segir Davíð því heilsugæsluna í mörgum tilfellum þurfa að víkja fyrir bráðaþjónustunni.

„Við erum ekki að ná að anna þessu öllu, en sinnum að sjálfsögðu bráðaerindum og reynum að leysa úr þeim verkefnum sem inn á okkar borð koma. Við erum að keyra á um 50 til 75 prósent læknamönnun stærstan hluta ársins þannig að það getur ekki talist gott,“ segir Davíð, og bætir við að enginn endist í slíkum aðstæðum til lengdar.

„Að starfa á landsbyggðarheilsugæslu er ótrúlega fjölbreytt og gefandi starf og flestir kollegar sem ég ræði við eru því sammála. En um leið er það vaktabyrðin og álagið sem fælir fólk frá að setjast að til lengri tíma,“ segir Davíð.

„Þetta er ástand sem mun fara versnandi ef ekkert er að gert. Ég tel að til dæmis þurfi að fá læknanema og sérnámslækna meira út á land í náminu til að kynnast aðstæðum með góðan stuðning á bak við sig. Það þarf að vera eftirsóknarvert að vinna á landsbyggðinni, eitthvað sem dregur lækna út á land. Ýmislegt hefur verið nefnt þegar kemur að þessu, til dæmis laun, skattaafsláttur og aðstoð með húsnæði eða námslán. Það þarf bara að velta öllum steinum,“ segir Davíð.

Allt viðtalið við Davíð má lesa hér.