
Ég elska að koma til Vestmannaeyja. Mér hefur alltaf fundist ég vera Eyjamaður ekki síst fyrir það að móðir mín er fædd og uppalinn í Eyjum. Afi minn var hér skipstjóri, hann var sannur Eyjapeyji, kunni að skemmta sér og segja sögur. Síðan hefur mér alltaf verið hlýtt til Betel en langamma mín var ein af stofnendum. Við fjölskyldan dvöldum hér reglulega á sumrin en konan mín er ljósmóðir og leysti af á sjúkrahúsinu. Á mínum yngri árum lét ég mig að sjálfsögðu ekki vanta á þjóðhátíð. Ég var t.d. á þjóðhátíðinni þegar Stuðmannamyndin var tekin upp. Það var eftirminnileg þjóðhátíð. Það helliringdi allan tímann. Um kvöldið var ég orðinn rennandi blautur og kaldur. Ég ætlaði inn í tjald og fara að sofa en þá var pollur í tjaldinu. Ég fór aftur út en hitti þá Hadda frænda minn sem sagði að ég skyldi nú bara skella mér til hennar frænku minnar, sem bjó ekki langt frá dalnum og sofa þar. Haddi lýsti því síðan fyrir mér hvar hún bjó og að ég skyldi fara inn um bílskúrinn, sem og ég gerði. Ég fór síðan beint inn í stofu og steinsofnaði í sófanum. Um morguninn vaknaði ég síðan við krakka í stofunni sem kölluðu; mamma, mamma…það er maður í stofunni. Ég hafði þá farið í vitlaust hús ! En mér var vel tekið, fékk morgunmat og fínerí. Svona eru Eyjamenn gestrisnir og skemmtilegir.

Ég elska að koma til Vestmannaeyja. Náttúran er einstök, nálægð við fuglana og kindur prílandi í snarbröttum hlíðum. Eldgosið 1973 minnir á sig við hvert fótmál. Svo er stutt að fara fyrir stelpur ofan af landi sem hafa takmarkaðan tíma og skreppa í verslunarferð í miðbæinn.
Ég hlakka til að vinna fyrir Eyjamenn.

Ég elska að koma til Vestmannaeyjar. Eyjar hafa ávallt verið sveipaðar ákveðnum ævintýraljóma og dulúð fyrir mér. Eyjarnar draga fram barnið í mér og æskuþrána. Framtíð Eyjamanna er björt svo lengi sem tækifærin eru beisluð. Tækifærin eru að finna í sérstöðu og sérþekkingu Vestamannaeyja og heimamanna en ekki hvað síst í góðum samgöngum sem er forsenda byggðar hvert sem litið er.

Ég elska Vestmannaeyjar. Hér á ég heima og hér er fjölskylda mín. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni enda er ég ofvirkur. Náttúrufegurð, úteyjarlíf og sterkir karakterar er stór partur af lífshlaupi mínu. Ég byrjaði að vinna með Stebba í Hólatungu og Högna í Vatnsdal. Úteyjarlífið með Oddstaðarbræðrum og Tóta á Kirkjubæ og Væa. Svo er það rollustússið með Reykjabræðrum, sem eru enn að, Begga á skuldinni, Bjarna Sighvats, Svenna á Krissunni og Gunnari Árna. Allt svo sterkir karakterar sem gefa manni ógleymanlegar minningar. Ég fer í þennan slag með gleðina að vopni og með hagsmuni Eyjamanna að leiðarljósi.