Nýtt hlaðvarp/podcast fór í loftið fimmtudaginn 4. mars.
Það eru þau Alma Eðvaldsdóttir, Hinrik Ingi Ásgrímsson og Snorri Rúnarsson sem standa á bakvið hlaðvarpið. Það er byggt upp á viðtali við fólk sem tengist Eyjum á einn eða annan hátt. Rætt er við fólk um líf þeirra og störf. Eftir viðtalið, er síðan smá sögubrot úr Eyjum sem starfsfólk Bókasafns Vestmannaeyja er búið að taka saman.
Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi.
Hlaðvarpið verður aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Einnig er hlaðvarpið á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram og Twitter.
Voru öll með sömu hugmyndina
Hugmyndin að hlaðvarpinu kom eiginlega bara upp úr þurru hjá Ölmu og bað hún þá Hinrik og Snorra að hjálpa sér að koma því í framkvæmd, tæknilega séð. Tímasetningin var svolítið fyndin því að Hinrik og Snorri höfðu einnig svipaða hugmynd sem þeir voru að pæla í og ætluðu að biðja Ölmu að vera með sér í henni. Þannig að þetta er eitthvað sem hefur greinilega átt að eiga sér stað.
Alma sér um að vera spyrill þáttanna og strákarnir sjá um tæknihliðina, en saman sjá þau um að klippa og setja þættina saman fyrir hlustun.
Nú þegar eru þau komin með nokkur viðtöl.
Auðvelt hefur verið að fá fólk til að taka þátt í viðtölum og allir sem við höfum rætt við eru mjög áhugasamir um hugmyndina. Við erum nú þegar búin að taka nokkur viðtöl sem við eigum síðan eftir að vinna fyrir hlustun og sjáum við fram á að þetta verði nú eitthvað sem kemur til með að verða langlíft, ef áhuginn verður fyrir hendi hjá hlustendum.
Við fáum að taka viðtölin upp í fundarsalnum á Hótel Vestmanna-eyjum og þökkum við Öddu og Magga kærlega fyrir að opna salinn fyrir okkur.
Núna bíðum við bara spennt eftir að setja fyrsta þáttinn í loftið og vonum að viðtökurnar verði góðar.