Það var góð stemning á sjöundu sýningunni í sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt í Einarsstofu á laugardaginn. Þar voru mætt Jóna Heiða Sigurlásdóttir og Friðrik Björgvinsson, ólík og hvort með sitt sjónarhorn á lífið og tilveruna en bæði bráskemmtileg. Jóna Heiða með myndir úr náttúrunni en Friðrik sýndi okkur náttúruna í stærra samhengi og fólk sem hann hefur átt samleið með um ævina. Líflegar lýsingar þeirra gáfu sýningunum meira gildi. Jóna Heiða hefur uppgötvað ýmislegt í Nýja hrauninu, fjársjóði sem hún vill ekki opinbera og Friðrik sagði m.a. frá eftirminnilegum loðnutúr á Huginn VE.
Nú eru það Helgi Tórshamar og Ólafur Lárusson sem mæta. Helgi tiltölulega nýbyrjaður að taka myndir af krafti og Óli sem hefur í áratugi tekið myndir af því sem fyrir augu hans ber. „Ég byrjaði að taka myndir 1968, fermingarsumarið mitt. Fékk pening til að kaupa myndavél en það fór illa fyrir henni því hún bráðnaði í sól og eyðilagðist,“ segir Óli sem var í samkrulli með Kjartani heitnum Eggertssyni þegar kom að því að framkalla og stækka myndirnar á þessum árum.
Óli hélt áfram að mynda og er í dag vel búinn tækjum, með eina Nikon og eina Leica sem er mikil galdravél. „Ég tek myndir af öllu og sýningin
á laugardaginn verður þverskurður af því sem ég hef verið að mynda í gegnum árin eða saga mín spannar hálfa öld.“
Helgi segist alltaf hafa verið með myndavéladellu og byrjaði snemma að taka myndir. Eyddi líka tímanum í að skoða myndir annarra en það var ekki fyrr en 2012 sem hann tekur til við að taka myndir fyrir alvöru. Þá urðu mikil tímamót í lífi hans. „Það var árið sem ég hætti að drekka og gerði Drottinn að leiðtoga lífs míns. Á þeim tíma átti ég þokkalega vél en nú var ástríða vöknuð. Ég keypti alvöru myndavél og fékk Bjarna Þór til að aðstoða mig. Á ég honum mikið að þakka. Trúin er mín stoð í baráttunni og það hjálpar líka að eiga sér tómstundagaman eins og ljósmyndun,“ segir Helgi sem líka er tónlistarmaður.
Hann sýnir m.a. myndir úr úteyjum og af smalamennsku. „Mér finnst gaman að taka myndir af fólki í smölun og við önnur tækifæri, sérstaklega þegar fólk veit ekki af myndavélinni. Ég sýni myndir teknar á jörðu niðri og myndir úr dróna. Svona sitt lítið af hverju.“
Sýningin byrjar eins og venjulega klukkan 13.00 á laugardaginn í Einarsstofu og stendur í einn til einn og hálfur klukkutími. Rétt er að árétta að um er að ræða ljósmyndir sem rúlla á sýningartjaldi og eru aðeins til sýnis þessa stuttu stund. Því er um að gera að mæta og njóta dagskrárinnar.