Vestmannaeyjar eiga eitt öflugasta áhugaleikfélag landsins

Leikfélag Vestmannaeyja hefur verið að æfa af krafti undanfarnar vikur að nýju verki sem frumsýnt verður á Skírdag.  Verkið er söngleikurinn Spamalot sem er skrifaður af Monty Python.  Stefán Benedikt Vilhelmsson leikstýrir hópnum í Leikfélagi Vestmannaeyja. Stefán er fæddur árið 1980 og er frá Egilsstöðum en hann ólst upp á Fljótsdalshéraði. Foreldrar hans búa svo núorðið á Seyðisfirði sem hann kallar svolítið æskuslóðirnar líka þar sem hann á mikið af góðum minningum þaðan. Blaðamaður Tíguls fékk Benedikt í létt spjall. 

 

Fjölskylda: Eiginkonan Andrea Ösp Karlsdóttir, leikkona. Tvær dætur, þær Embla Steinvör og Iðunn Eldey. 

Starf / Menntun: Leikari með BFA gráðu frá Listaháskóla Íslands. 

Nokkur orð um það sem þú hefur verið að bardúsa fram til þessa?

Stærstur hluti af mínum ferli hefur verið tileinkaður sjálfstæðum leikhópum og þá auðvitað langmest elsku Lottunni minni, en ég hef frá 2011 leikið og unnið með stórkostlegu fólki í Leikhópnum Lottu. Auk þess hef ég verið að leikstýra töluvert. Ég talset svo töluvert mikið af teiknimyndum og þáttum bæði hjá Myndform og Stúdíó Sýrlandi og hef lesið ca. 40 hljóðbækur fyrir Storytel. 

Til hverra nær leikritið Spamalot?

Spamalot er söngleikur skrifaður af Monty Python genginu og sem slíkur fullur af fullorðins húmor og afar svörtum og klúrum bröndurum og orðfari á köflum. Svo sýningin er líklega ekki hönnuð fyrir undir 12 ára þó ég haldi nú að krakkar gætu alveg haft mjög gaman af þessu. 

Hefuru leikstýrt mörgum verkum?

Ég hef leikstýrt vel á annan tug leiksýninga en leikstjórn er eitthvað sem mig langar mjög að geta gert meira af. Verkefnastaðan hefur þó verið þannig að ég get alls ekki gert jafn mikið af því og ég vildi. Spamalot verður held ég fimmtánda verkið sem ég leikstýri. 

Uppáhaldsverk sem þú hefur leikið í eða leikstýrt?

Litla hryllingsbúðin á sérstakan stað í hjarta mínu þar sem ég hef leikstýrt þremur uppsetningum af henni. Og Litaland sem ég leikstýrði hjá Leikhópnum Lottu. Og svo er svona guilty pleasure uppáhald MEDÍA sem ég skrifaði með hópnum og leikstyrði hjá Stúdentaleikhúsinu. Medía er sæ-fæ verk sem gerist í framtíðarheimi um borð í geimskipinu Medíu. Og var sturlað skemmtilegt. 

Hvernig líst þér á Leikfélag Vestmannaeyja?

Vestmannaeyjar eiga eitt öflugasta áhugaleikfélag landsins. 

Ég þekki vel til þar sem ég hef leikstýrt hér tvisvar áður (Litla Hryllingsbúðin og Nei Ráðherra) og haldið hér námskeið og fleira. Það vita kannski ekki margir að ég kom hér um 2000-ish, þá rétt  tvítugur og kenndi götuleikhús, eldblástur og stultugöngu. Og eignaðist marga góða vini frá eyjum. Þetta ætlaði félagið að nota á þjóðhátíð við að kveikja í brennu og ég held að þegar blysin voru tendruð hafi liðið blásið eld líka. 

Og þessu hefur verið haldið við að einhverju leyti sýnist mér hér síðan. Ég sá allavega stultur uppi í leikfélagi og það eru enn í félaginu einhverjir sem ég kenndi þá. 

Hvenær er frumsýningin?

28.mars – skírdag

Hvaða ofurkrafti myndiru vilja búa yfir?

Geta stjórnað tímanum og raunverulega haft 48 tíma í sólarhringnum. Og aukavikuna sem mann langar alltaf í í leikhúsinu fyrir frumsýningu.

Hvað færðu þér í morgunmat?

Morgunkorn, brauð og kaffi eru svona helstu réttirnir. 

Hver er mesta áhættan sem þú hefur tekið?

Konan mín. Margborgaði sig. 

Hvaða leikari myndi leika þig í bíómynd um þig?

Dætur mínar og konan mín myndu túlka mig 

og skipta því á milli sín. 

Hvaða fræga einstakling (lífs eða liðinn) í mannkynssögunni myndir þú vilja bjóða í kaffi og afhverju? 

Tim Burton held ég að yrði fyrir valinu og við myndum ræða mikið um list og drekka mikið kaffi. 

Ef þú ættir tímavél, til hvaða tíma myndiru vilja fara og afhverju?

Ég myndi fá valkvíða og enda á að googla alla áhugaverðustu tímana og persónurnar og vera mjög lengi að velja gaumgæfilega. Svo líklega ferðast aftur til þess tíma þegar ég var að byrja að googla og segja sjálfum mer hvað ég vildi og spara mér googlið. 

Hvaða smáforrit er ómissandi?

Notes

Eitthvað að lokum?

Bara að ráðleggja öllum að mæta á SPAMALOT –  sjáið Spamalot! Þetta verður sturlað fyndið og skemmtilegt. 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search