Vestmannaeyjabær – Afmælisárið 2019 í máli og myndum

07.07.2020

Margir sem komu að verki og því fólki öllu ber að þakka

Nú er lokið frágangi og uppsetningu á vefriti um alla viðburði á afmælisárinu okkar, 2019 þegar Vestmannaeyjakaupstaður fagnaði 100 ára afmæli. Það er um 350 blaðsíður af texta og myndum og sýnir fjölbreytta dagskrá afmælisnefndar, aðra viðburði á afmælisárinu og ekki síst fjölskrúðugt mannlíf Eyjanna.

„Allt árið var ein samfelld veisla í litum, tali og tónum. Allt frá sýningu á verkum Kjarvals í eigu Vestmannaeyjabæjar á nýársdag fram að tónleikum og sameiginlegri messu allra safnaða í Vestmannaeyjum og veislu í Safnaðarheimilinu í lok nóvember. Fengið var landsfrægt tónlistarfólk sem endaði með að skemmta íbúum á Hraunbúðum sem líka var boðið til mikillar veislu,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í formála Annálsins sem Ómar Garðarsson tók saman.

Meðal stórra viðburða nefnir Íris hátíðarfund bæjarstjórnar og málþing um stöðu Vestmannaeyja í nútíð og framtíð. Kom þar margt athyglisvert fram sem er þess vert að skoða nánar.

„Sameinuð afmælishátíð og goslok í byrjun júlí voru ein stór veisla með athöfninni á Skansinum, stórtónleikum í Íþróttamiðstöðinni fjölda myndlistarsýninga, dagskrá fyrir börn og unglinga að ógleymdu fjöri í Skvísusundi og Skipasandi. Stærsta ættarmóti landsins. Til að toppa þetta var veðrið frábært alla helgina, sól og hiti.

Þá er vert að minnast á sýningaröðina, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt, sem stóð fram í desember. Þar fengu gestir að sjá með hvaða augum ljósmyndararnir okkar sjá náttúru Eyjanna og okkur sem hér búum. Hin hefðbundnu mót og samkomur voru á sínum stað, Orkumótið, TM mótið og Þjóðhátíðin sem heppnaðist einstaklega vel í góðu veðri.

Það voru margir sem komu að verki og því fólki öllu ber að þakka. Við Eyjafólk sýnum að þegar á reynir stöndum við saman og fátt þykir okkur skemmtilegra en að taka á móti gestum. Erum líka frábær í að skemmta okkur sjálfum og þeim sem sækja okkur heim.

Höldum því áfram og ræktum garðinn okkar um leið og við hikum ekki að leita til þeirra fjölmörgu sem vilja leggja okkur lið þegar kallið kemur. Eyjafólk er að finna um allt land og út um allan heim. Margt í fremstu röð á sínu sviði, í stjórnsýslunni, í háskólasamfélaginu, í opinbera kerfinu, íþróttum og listum.

Dæmi um þetta eru Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir sem stýra baráttunni við Covid 19 með Siglfirðingnum Ölmu Möller landlækni. Öll ólust þau upp í sjávarplássum sem hefur greinilega verið gott vegarnesti. Af því eigum við að vera stolt, að skapa fólki það umhverfi sem þarf til að takast á við krefjandi verkefni. Sama á hvaða sviði það er.

Um leið og ég óska okkur til hamingju með frábæra afmælisdagskrá 2019 finnst mér að við eigum að einsetja okkur að öll ár framundan verði í anda afmælisársins, ár samheldni og samstöðu. Það er farsæll vegur til framtíðar,“ sagði Íris Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, að endingu.

Viktor Jónsson hefur séð um hönnun og uppsetningu, Óskar Pétur á flestar myndirnar og Ómar Garðarsson ber ábyrgð á texta sem Sóley Linda Egilsdóttir las yfir textann.

Annállinn fer inn á heimasíður bæjarins og þar er að finna afmælisárið í heild, allt á  einum stað. Er þetta hugsað fyrir áhugasama og ekki síður fyrir kynslóðir framtíðarinnar til að glugga í þegar saga Eyjanna er skoðuð og rifjuð upp.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja á afmælisárinu: Helga Kristín Kolbeins, Trausti Hjaltason, Njáll Ragnarsson, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Elís Jónsson.

Afmælisnefndina skipuðu Hrefna Jónsdóttir, Arnar Sigurmundsson og Stefán Óskar Jónasson. Þeim til halds og trausts voru Angantýr Einarsson, Kári Bjarnason og Ómar Garðarsson.

Samantekt: Ómar Garðarsson – Ljósmyndir: Óskar Pétur Friðriksson og Ómar Garðarsson – Kvikmyndir: Halldór B. Halldórsson – Netvinnsla Viktor Pétur Jónsson – Yfirlestur Sóley Linda Egilsdóttir.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is