Þriðjudagur 25. júní 2024

Vesen fyrir Þjóðhátíðina 2002

Við lentum í smá klandri ég og Hlynur Snær vinur minn þegar það átti að banna okkur að fara á Þjóðhátíðina 2002.

Hér kemur frásögnin af því hvernig við komum okkur í þetta klandur.

Árið er 2002, um miðjan júlí.
Það var kominn frekar mikill spenningur í okkur peyjana fyrir Þjóðhátíðinni enda sautján ára að fara á fyrstu alvöru Þjóðhátíðina með bakkus nýjasta vin okkar meðferðis.
Nýjasta Þjóðhátíðarlagið hljómaði í öllum útvörpum, Vinátta með Hreim sem við höfðum mikið dálæti af.

Spenningurinn var orðinn það mikill að við tókum forskot á sæluna einhverjum tveimur vikum fyrir Þjóðhátíð og heltum verulega upp á okkur. Leiðir okkar skildust svo um nóttina en þegar sólin var byrjuð að koma upp örugglega um fjögur leitið var ég kominn á rúntinn með einhverjum sem ég man ekki einu sinni hver var.

Ég man þó þegar ákveðið var að kíkja niður í Herjólfsdal að skoða hvernig gengi að undirbúa Þjóðhátíðina þá varð spenningurinn mikill. Ákveðið var að keyra hringinn í Dalnum en þegar bíllinn var kominn fyrir framan sviðið þá kalla ég hátt aftur í í bílnum: “STOPPAÐU BÍLINN. ÉG FER ÚT HÉR!”.

Sá sem var að keyra bílinn hélt væntanlega að ég þyrfti að kasta upp eða álíka svo bíllinn snarhemlaði.
En það var ekki málið. Ég hafi séð heilt bretti af Blákorni, fleiri fleiri tuttugu kílóa sekki af Blákorni. Þarna fékk ég frábæra hugmynd til að stimpla mig heldur betur inn á Þjóðhátíðina 2002.

Ég fer út úr bílnum og bílinn brunar í burtu. Ég tek upp einn tuttugu kílóa sekkinn, hendi honum upp á bakið á mér og rölti upp brekkuna. Þegar ég var kominn nógu hátt þá snéri ég mér við og virti fyrir mér útsýnið.

Síðan opnaði ég pokann og byrjaði að “graffa” brekkuna. Það var varla komið hálft Á þegar pokinn var búinn, svo það fóru einhverjir þrír fjórir pokar í viðbót til að klára að skrifa viðurnefni mitt ÁKI.

Þegar síðasti pokinn var búinn og listaverkið klárt þá rölti ég niður með tómu pokana og kom þeim fyrir hjá brettinu.
Ennið á mér perlaði eftir allt púlið. Ég stóð við hliðina á brettinu þegar ég fer að hugsa hvernig ég kæmi mér heim.

Allt í einu sé ég ljós á bíl koma inn í Dalinn og auðvitað keyrði hann hringinn. Það sem ég var feginn enda orðinn frekar lúinn.
Bíllinn stoppar þegar ég veifa höndunum og var að gera sig reiðubúinn til að skutla mér þegar Hlynur Snær opnar farþegahurðina aftur í, vel mjúkur og skelli hlægjandi þegar hann sér hvað ég hafði gert.

Hann fer út úr bílnum og ég geri mig klárann til að láta skutla mér heim og sest aftur í.

Hlynur horfir dáleiðandi á brettið af Blákorninu, snýr sér síðan við, horfir á mig og segir: “Skrifum OG HLYNUR”.
Ég var alveg dauðuppgefinn og segi: “Nei, Hlynur ég nenni því ekki”.

Hlynur labbar að brettinu, hendir tuttugu kílóa poka af Blákorni á bakið á sér og segir: “Flott. Ef þú ætlar ekki að hjálpa mér þá skrifa ég HOMMI bak við ÁKI”.

Þar sem að ég þekkti Hlyn vel þá vissi ég að hann myndi hundrað prósent gera það og ég yrði að athlægi á Þjóðhátíðinni. Svo ég dæsti, steig út úr bílnum, reif upp poka og elti hann upp brekkuna.

Síðan kláruðum við að skrifa OG HLYNUR og komum okkur svo heim að sofa, dauðuppgefnir enda klukkan að ganga sex sjö um morguninn.

Rétt eftir hádegi þá eru mamma, pabbi og Fríða systir í sunnudags bíltúr uppi á Stórhöfða og þegar pabbi snýr Pajero jeppanum á hringtorginu þá horfir hann í áttina til Herjólfsdals og sér eitthvað hvítt í brekkunni sem myndaði stafi. Hann tekur upp kíkirinn sinn og síðan heyrist: “Helvítis andskotans peyjaskrattinn, hvað hefur hann gert núna?” Mamma og Fríða systir skildu hvorki upp né niður hvað hefði komið fyrir pabba. Þangað til hann sagði þeim hvað ég hafði gert.

Þau rjúka heim og ég vakna við það að pabbi kemur inn í herbergi og húðskammar mig. Ég átti erfitt með að neita þessu því við skrifuðum nöfnin okkar í fjögurra, fimm metra háum stöfum í brekkuna.

Mér fannst ekkert agalegt að láta pabba skamma mig, enda vanur því. En þegar ég kom fram þá sá ég hvað mamma var sár þá fékk ég sting í hjartað og fattaði að þetta hafi jafnvel ekki verið svo sniðugt.

Næstu dagar fóru í það að biðja Þjóðhátíðarnefnd afsökunar sem tók ekkert allt of vel í afsökunina. Það stóð til að láta banna okkur tvo á Þjóðhátíðinni 2002 en við lofuðum öllu fögru og á endanum þá féllst Þjóðhátíðarnefnd á það að leyfa okkur að fara á Þjóðhátíðina með því skilyrði að við myndum laga brekkuna.

Það tók nokkur kvöld og ekkert gekk því brekkan var brunnin eftir allt Blákornið. Lokaniðurstaðan var sú að heilt bretti af torfi var komið fyrir á sama stað og Blákornið var og við látnir tyrfa yfir allt saman. Sem við á endanum gerðum.

Svo það má segja að við Hlynur höfum verið forsprakkar í því að tyrfa brekkuna fyrir lausu grjóti og örugglega bjargað mörgum á seinni Þjóðhátíðum að fá ekki grjót í bakið þegar fólk var að fara upp í brekku að pissa.

Þegar myndin hér að ofan er tekin af okkur þá vorum við að fara í fyrstu atlögu á því að laga brekkuna.
Ég tók auðvitað myndavélina mína með og lét taka mynd af okkur og listaverkinu áður en það var eyðilagt.

Það sem við lærðum af þessu var að skrifa ekki nöfnin okkar við verknaðinn þegar við ætluðum að brjóta af okkur í framtíðinni.

Kveðja Ágúst Halldórsson

agusthall.is

Lagið sem hljómaði í öllum viðtækjum landsins þegar atburðurinn átti sér stað.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search