Miðvikudagur 24. júlí 2024

Vér lifum nú byltingartíma – Hver þarf að vera sinn eigin læknir – líkt og fyrrum

20.09.2020

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri rifjar upp áhugaverða sögu, meðal annars okkar hér í Vestmannaeyjum inn á facebooksíðu sinni í dag. Tígull hafði samband við Ásgeir og fékk leyfi til að birta færsluna hér: 

„Eins og hver Íslendingur er sinn eiginn smiður, eða kann að minnsta kosti að járna hest, eins er hver sinn eiginn læknir, eða þekkir eitthvað til lækninga.“ segir í merkri doktorsritgerð Peters Schleisners um íslensk heilbrigðismál árið 1849.

Schleisner þessi var sendur til Vestmannaeyja 1847 til þess að vinna bug á sk. ginklofa – sem varð 60-80% nýfæddra barna þar að bana. Þá voru aðeins 8 læknar á Íslandi – eða 1 á hverja 7000 íbúa. Og enginn spítali. Aftur á móti var 1 prestur á hverja 308 íbúa. Og 294 kirkjur. Sýnir þetta vel forgangsröðun í þágu andlegrar fremur en líkamlegrar velferðar á þessum tíma. En það er önnur saga.

Hinn sama vetur og téður Schleisner var í Eyjum (1847) starfaði annar læknir – Ignaz Semmelweis – á Landsspítala Vínarborgar. Hann kom með þá hugmynd að læknar þvæðu sér um hendur áður en þeir færu inn á fæðingardeildina. Þessu var illa tekið. Semmelweiss var hæddur og hundeltur. Hann fékk taugaáfall árið 1865 – og var lagður inn á geðveikrahæli af stéttarbræðrum sínum. Þar lést hann eftir barsmíðar varðanna. Þá voru enn þó nokkur ár til þess að læknar viðurkenndu nauðsyn þess að þvo sér um hendur.

Schleisner náði miklum árangri gegn ginklofanum – með sömu forsendum. Hann reyndi alls konar hluti en mestu skipti þó að hann bar olíu á naflastreng nýbura – sem lokaði fyrir sýkingar. Líklega hefur hann þó ekki sjálfur gert sér fulla grein fyrir þessu. Það er þó alveg efalaust – Schleisner bjargaði lífi fjölda barna í Eyjum.

Það að vera sinn eigin læknir – kom Íslendingum ekki að öllu leyti illa. Hérlendis fæddu konur heima með hjálp ljósmæðra – og aðeins 1 móðir af hverjum 241 dóu. Í Danmörku fæddu konur á spítala – og margar veiktust á sæng. Og 1 af hverjum 85 lést. Schleisner taldi íslenskar konur einfaldlega hraustari – hið rétta var að þó íslensk heimili væru skítug voru þau samt öruggari fyrir nýbakaðar mæður en danskir spítalar.

Mér finnst sagan af þeim tveim – Schleisner og Semmelweis – sýna að læknisvísindin eru grein í stöðugri þróun. Þau hafa búið okkur lífsöryggi – sem Covid veiran hefur skyndilega tekið af okkur. Og jafnframt að helsta fyrirstaðan fyrir framförum í greininni – hefur gjarnan komið frá læknunum sjálfum.

Vér lifum nú byltingartíma – þegar sótthreinsun og sóttvarnir eru teknar upp á annað stig sem má jafna saman við þá byltingu er læknar fóru að þvo sér um hendur. Við þurfum að læra að lifa með veirunni – hvort sem okkur líkar betur eða verr – og sætta okkur við sóttvarnarráðstafanir. Hver þarf að vera sinn eigin læknir – líkt og fyrrum. Það þarf þó að gerast með þeim hætti að við höldum uppi nauðsynlegri starfsemi í samfélaginu – og getum tryggt lífsafkomu fólks. Um einmitt þetta – munu næstu vikur og mánuðir snúast.

Forsíðumynd er skjáskot frá Heimaslóð.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search