Þriðjudagur 16. júlí 2024

Velkomin öll til Eyja!

Fjórir viðburðir setja svip sinn á sumarið hér í Vestmannaeyjum umfram allt annað: TM-mótið, Orkumótið, Goslok og Þjóðhátíð.

Sá ‘’yngsti’’ þeirra, TM-mótið, er nú haldinn í 35. sinn en sá elsti, Þjóðhátíðin, í 150. sinn!

Fótboltamótin tvö hafa yfir sér alveg sérstakan ljóma – bæði fyrir okkur Eyjamenn og þá sem hingað koma sem þátttakendur og fylgdarlið. Bærinn gjörsamlega fyllist af brosandi andlitum, lífsgleði, eftirvæntingu, kátínu og skemmtilegum ólátum. Og ‘’…jafnvel gamlir símastaurar syngja í sólskininu og verða grænir aftur’’ – eins og skáldið sagði.

Ég hef séð annálaða fýlupúka skarta sjaldgæfu brosi eins og þeir hefðu öðlast endurnýjaða trú á framtíð mannsins á jörðinni. Eða að minnsta kosti í Vestmannaeyjum!

Ég hef heyrt afreksfólk í fótbolta lýsa upplifun sinni af þessum mótum og hvað þau skiptu miklu máli í þroskasögu þeirra; félagslega og íþróttalega. 

Sjálfur átti ég þess kost – sem betur fer – að vera foreldri á nokkrum svona mótum og fylltist söknuði og eftirsjá þegar það tók enda! Hlakka núna til að mæta með afabörnin. Nokkrum sinnum, í algjöru hallæri, hef ég verið kallaður til að dæma leiki á þessum mótum og hef þá skemmt mér konunglega ekki síður en börnin.

Sjaldan hef ég fyllst meiri efasemdum um sjálfan mig og þegar ég dæmdi einu sinni víti í viðkvæmri stöðu. Peyinn sem ég taldi hafa brotið af sér kom til mín og spurði með tárin í augunum: ‘’Ertu viss um þetta manni?’’ Og þá var ég ekki lengur viss – og var með nagandi efasemdir lengi á eftir.

Og talandi um víti: Ætli ‘’Víti í Vestmannaeyjum’’ eftir Gunnar Helgason sé ekki ein vinsælasta barnasaga sem gefin hefur verið út á Íslandi – bæði í bók og bíó? Þessi saga hefur ásamt öllu öðru orðið til þess að gera mótin að stórmerku menningar- og félagslegu fyrirbrigði.

Mjög stór hluti Íslendinga, sem hafa verið að komast til vits og ára

síðustu 40 árin, hefur átt einhvern snertiflöt við þessi mót. Og fyrir og Eyjar og Eyjamenn er það ómetanlegt hversu jákvæð og skemmtileg þessi fyrstu kynni margra af Vestmannaeyjum eru.

Þess vegna veit ég að ég tala fyrir hönd allra Eyjamanna þegar ég býð gesti okkar – þátttakendur, foreldra, afa og ömmur, þjálfara og annað fylgdarlið – hjartanlega velkomna til Vestmannaeyja. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera ykkur dvölina ánægjulega og eftirminnilega.

Ég vil svo nota tækifærið og þakka ÍBV og öllum sjálfboðaliðahernum á vegum félagsins fyrir að standa að þessum kraftaverkum og gleðisprengjum í bænum ár eftir ár – áratugum saman.

Góða skemmtun!

Páll Magnússon,

forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search