Fimmtudagur 28. september 2023

Vel heppnað Landsmót skólahljómsveita

Landsmót skólahljómsveita fór fram í Vestmannaeyjum um síðustu helgi. Um var að ræða mót B hljómsveita, sem eru að mestu börn á aldrinum 8-12 ára. Upphaflega var ætlunin að vera með landsmót A og B hljómsveita í vor, en það var slegið af vegna veðurs. Þá var von á um 700 börnum ásamt rúmlega 100 fylgjendum, en fjöldinn á mótinu núna var um 210 börn ásamt um 40 fylgjendum.

Það leit ekki vel út um tíma með mót helgarinnar, enda gerði snarpa brælu á föstudeginum einmitt þegar áætlað hafði verið að gestirnir kæmu. Því var plan helgarinnar endurhannað og hópurinn kom með tveim fyrstu ferðum Herjólfs á laugardeginum.

Þá var veðrið orðið eins og það gerist best í Eyjum og hélst það þannig fram á seinnipart sunnudags þegar gestirnir héldu heim. Börnunum var skipt upp í tvær lúðrasveitir, eina 130 manna og aðra 80 manna sem voru hér við æfingar í Íþróttamiðstöð og Týsheimili ásamt því sem þau brugðu sér í sund og heimsóttu Eldheima. Gist var í Hamarsskóla, sem rúmaði gestina vel. Maturinn var á höndum Einsa Kalda og var framreiddur í Höllinni, þar sem einnig fór fram kvöldvaka laugardagsins. Voru börn og fullorðnir hæstánægðir með matseldina, sem kom okkur sem þekkjum til starfsfólks Einsa ekkert á óvart. Jón Ævar töframaður kom á æfingarnar og á kvöldskemmtunina og sló þar í gegn með skemmtilegu töfrabragða uppistandi. Viking tours sáu um að koma öllum gestum á milli staða, sem var nauðsynlegur hluti heimsóknarinnar, enda búið að pakka dagskránni mjög þétt saman og nýta þurfti allar lausar mínútur til æfinga. Gestir mótsins lýstu yfir mikilli ánægju með starfsmenn Viking tours og þeirra þjónustu.

Það var vissulega svekkjandi að þurfa að aflýsa AB mótinu sem átti að halda í vor, en það varð þó til þess á endanum að mótið var haldið á miðju Lundapysjutímabilinu hér í Eyjum. Því var skipulögð lundapysjuveiði á laugardagskvöldinu frá kl.22:00. Rúmlega 200 börn leituðu að pysjum fram undir miðnættið, sem skilaði 10 pysjum. Þeim pysjum var svo sleppt morguninn eftir. Var þetta líklega einn af hápunktum ferðarinnar fyrir marga gestina sem aldrei höfðu upplifað slíkt áður.

Á sunnudeginum voru svo tónleikar þar sem báðar sveitir mótsins komu fram og spiluðu lögin sem æfð höfðu verið þessa tvo daga. Var ágætis mæting í Íþróttamiðstöðina og var flutningur beggja lúðrasveitanna til fyrirmyndar og langt umfram það sem ætla mætti af ungum flytjendum með svo knappann tíma til æfinga.

Það voru glaðir gestir sem enduðu sunnudaginn í pulsupartýi í Höllinni áður en haldið var heim með ferð Herjólfs kl.17:00. Víða heyrðust börn leggja að foreldrum sínum áform um heimsókn til Vestmannaeyja næsta sumar. Skipulagning mótsins var í höndum Skólalúðrasveitar Vestmannaeyja og stjórn SÍSL (Samband Íslenskra Skólalúðrasveita). Þótti mótið heppnast afskaplega vel, þrátt fyrir erfiða fæðingu og mikla breytingu á plönum, eftir því sem veður og samgöngur leyfðu. Á endanum var þó haldið langþráð landsmót skólalúðrasveita hér í Vestmannaeyjum og var veðrið algerlega dásamlegt allan tímann á meðan því stóð. 

Fyrir hönd mótshaldara vill Skólalúðrasveitin þakka öllum sem komu að því að gera þetta mögulegt. Var sama hvar borið var niður, allsstaðar var þjónustulundin í fyrirrúmi sem skilaði ánægjulegri upplifun gesta okkar.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is