22.03.2020
Veitingastaðir í Vestmannaeyjum segja hertar aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins vera svakalegt högg en hvetja fólk til að heimsækja bæinn í sumar þegar öllu er afstaðið
Tanginn veitingahús í Vestmannaeyjum lokaði fyrir borðapantanir í kvöld vegna áhrifa kórónaveirunnar á veitingageirann. Matsölustaðir í Eyjum hafa fyrst og fremst snúið sjónum að heimsendingarþjónustu og sóttum mat undanfarið en hertar aðgerðir vegna COVID-19.
Þörfin á slíkum breytingum var staðfest í kvöld þegar tilkynnt var að blátt bann við samkomum þar sem fleiri en tíu koma saman tæki gildi klukkan 22:00 í kvöld.
„Höggið var að vissu leyti komið og við farin að finna fyrir samdrætti en í kvöld var staðfest það sem mann hafði grunað, að við stefndum fyrst og fremst í heimsendingarþjónustu og take away,“ segir Páll Scheving, eigandi Tangans veitingahúss í Vestmannaeyjum, í samtali við Fréttablaðið. „Við vorum undir það búin.“
Hvetja til innanlandsferða
Fleiri veitingamenn taka í sama streng. „Það eina sem við gátum gert var að loka fyrir borðapantanir og breyta allri okkar starfsemi,“ segir Berglind Sigmarsdóttir eigandi veitingahússins Gott í Vestmannaeyjum. Staðurinn lokaði sal sínum fyrir tveimur dögum en sendir Eyjamönnum áfram „spicy vefjur“ eins og enginn sé morgundagurinn þrátt fyrir hertar aðgerðir vegna COVID-19.
„Þetta er svakalegt högg en eftir að við heyrðum frá útspili ríkisstjórnarinnar í dag hefur maður von,“ segir Berglind og hvetur fólk til að ferðast innanlands í sumar. „Það gæti bjargað okkur.“ Páll á Tanga tekur undir þau hvatningarorð. „Vestmannaeyjar verða áhugaverður áfangastaður þegar þetta er afstaðið.“
Frétt frá Fréttablaðinu forsíðumynd Tói Vídó