Veiðitímabil rjúpu verður frá 1. – 30. nóvember í ár

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2021

Heimilt er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en eins og síðustu ár er veiðibann á miðvikudögum og fimmtudögum. Sú breyting er þó gerð á að ekki verður heimilt að hefja leit eða veiði á rjúpu fyrr en kl. 12.00 þá daga sem heimilt er að veiða og skal veiði eingöngu standa á meðan birtu nýtur. Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Eru veiðimenn hvattir til að takmarka veiðar í ljósi bágrar stöðu rjúpnastofnsins.Stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár og hefur hann ekki verið minni síðan árið 2003. Veiðistofninn er einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995 og aðeins einu sinni áður, árið 2002, hefur veiðistofninn verið metinn svo lítill.

Fyrir liggur veiðiþol rjúpnastofnsins samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er 20 þúsund fuglar í ár. Reynsla undanfarinna ára sýnir að raunveiði hefur verið talsvert umfram ráðgjöf þegar stofn rjúpu er í lágmarki, og var búist við um 30 þúsund fugla veiði miðað við óbreytta veiðistjórn. Því óskaði umhverfis- og auðlindaráðuneytið eftir frekari greiningu Umhverfisstofnunar á stjórntækjum vegna rjúpnaveiða með það að markmiði að halda heildarveiðinni við ráðlagðan fjölda, 20.000 fugla.

„Til lengri tíma litið þá hefur rjúpnastofninn minnkað eins fram kemur í mati Náttúrufræðistofnunar Íslands. Rjúpan er t.a.m. aðalfæða fálkans svo færri rjúpur þýða líka aukin afföll af fálkum. Í ofanálag veldur maðurinn auknu álagi á stofn sem er veikur fyrir. Við þurfum að reyna að tryggja sjálfbærni í veiðum og leita allra leiða til að fara ekki yfir mat á veiðiþoli, sérlega þegar stofninn er í lægð. Breytingarnar á veiðistjórnuninni og hófsemi í veiðum tryggja það vonandi. Ég hvet veiðimenn sérstaklega til að veiða ekki meira en 3-4 rjúpur eða bara sleppa því í ár svo rjúpan njóti vafans og minni á að í gildi er sölubann,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, skuli vera sjálfbær. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting. Unnið verður að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpuna á næstu mánuðum, sem verður grundvöllur ákvörðunar um veiðar í framtíðinni.

Sölubann er á rjúpum en í því felst að óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Umhverfisstofnun er falið að fylgja sölubanninu eftir.

Veiðimenn eru eindregið hvattir til að takmarka veiðar og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða. Ekki er heimilt að hefja leit eða veiði á rjúpu fyrr en kl. 12.00 þá daga sem heimilt er að veiða og skal veiði lokið áður en rökkvar.

Verndarsvæði verður á SV-landi líkt og undanfarin ár. Veiðimönnum er bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.

Mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2021

Tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu 2021

Greining Umhverfisstofnunar á stjórntækjum vegna rjúpnaveiða 2021

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search