25.03.2020
Eftir marga viðburði, bæði stóra og smáa í Safnahúsi á síðasta ári sem flestir tengdust afmælisári Vestmannaeyjabæjar sem þá fagnaði 100 ára afmæli var ákveðið að halda áfram á sömu braut á nýju ári. Stundum fara hlutirnir ekki eins og ætlað er og nú er það Covid 19 veiran frá Kína sem er til vandræða og allt í frosti. Það er þó ljós við enda gangnanna því Sagnheimar hafa fengið veglegan styrk frá Safnaráði sem mun hleypa lifi í starfsemina þegar hjólin fara að snúast á ný.
Samkvæmt heimasíðu Safnaráðs fengu Sagnheimar Byggða og Náttúrugripasafn 3.900.000 í verkefnastyrki að þessu sinni sem mun svo sannarlega styrkja söfnin okkar til framtíðar.
,,Það var gaman að fá fréttir af þessu nú þegar allt er á bið hjá okkur vegna veirunnar,‘‘ sagði Hörður Baldvinsson, forstöðumaður Sagnheima. ,,Ég sótti um nokkra styrki og í síðustu viku fékk ég að vita að allar umsóknirnar okkar fengu jákvæða umsögn sérfræðinga Safnaráðs og fengum við verulega upphæð sem hleypir vonandi nýju lífi í starfsemina. Það er margt á döfinni, sýningar, fyrirlestrar og ráðstefnur eins og verið hafa undanfarin ár. En nú er hægt að setja meiri kraft í þetta.
Mér finnst gaman að geta sagt frá þessu núna þegar lítið er um að vera. Það mun birta og þá setjum við allt á fullt og horfum björtum augum til sumarsins,‘‘ sagði Hörður að endingu.