Veðjum á náttúruna

Ég sit á Skansinum í stafalogni og sól og horfi hvar flutningaskip speglast í haffletinum þar sem áður speglaðist tignarlegur Heimaklettur.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum þann 25. janúar 2024 að auglýsa breytingar á aðalskipulagi sem gerir ráð fyrir nýjum landnotkunarreitum fyrir hafnarsvæði. Með þeim er gert ráð fyrir viðlegukanti við Löngu og stórskipakanti frá Skansfjöru yfir að Gjábakkafjöru. Samkvæmt skipulagslýsingu sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu Alta eru þessar framkvæmdir fyrirhugað til að hægt sé að taka inn stærri flutningaskip, ekjuflutningaskip, auk farþegaskipa og að skapa landrými fyrir gáma.

Í skýrslu Alta segir: ,,Bæði svæðin sem horft er til við stækkun Vestmannaeyjahafnar liggja í nálægð við hverfisvernduð svæði. Viðlegukantur við Kleifar liggur framan við Heimaklett sem er útivistarstaður en ásýnd Heimakletts skapar einnig sérstæða sýn þar sem brattur klettaveggur rís úr sjó. Mikilvægt er að viðhalda eins og hægt er þessari ásýnd sem skapar eitt helsta sérkenni Vestmannaeyja. Innan hafnargarða Hörgeyrargarðs er Viðlagafjara þar sem er blómlegt æðavarp. Við Gjábakkafjöru liggja hverfisvernduð svæði HV-4 og HV-5 og í nálægð fjörunnar liggur Flakkarinn sem er á náttúruminjaskrá. Við Flakkarann er einnig vinsæll útsýnispallur þaðan sem er útsýni yfir í Klettsvík og á Ystaklett. Handan hafnarmynnisins er svo Hverfisverndarsvæði HV-21 og Ystiklettur sem er á náttúruminjaskrá vegna mikillar og sérstæðrar fuglabyggðar”.

Ég átta mig á mikilvægi sjávarútvegsins í okkar samfélagi og þess að mæta þörfum vaxandi fyrirtækja sem eru starfrækt hér í Eyjum en mér finnst mjög mikilvægt að við stöldrum við og stígum varlega til jarðar þegar kemur að svo veigamiklum framkvæmdum í náttúru Vestmannaeyja.

Náttúra Vestmannaeyja er fögur, stórbrotin og gjöful.

Við sem Vestmanneyingarhöfum státað okkur af henni, erum stolt af okkar arfleifð og sögu sem á sér oftar  en ekki rætur að rekja til hennar. Við erum ekki þau einu sem höfum þessar hugmyndir um Eyjarnar okkar heldur er náttúrufegurð þeirra þekkt á heimsvísu og ekki hvað síst okkar einstaka innsigling og Heimaklettur sem er okkar einkenni. Það er ljóst að stórskipahöfn við innsiglinguna mun hafa neikvæð áhrif á ásýnd Eyjanna, og verulega neikvæð áhrif á upplifun þeirra sem koma sjóleiðina til Eyja en höfnin, stærðarinnar gámaskip eða gámasvæði mun vera það fyrsta sem tekur á móti fólki.

Fyrir utan virðinguna sem við Vestmannaeyingar hljótum að bera fyrir náttúrunni hefur ferðaþjónustan blómstrað hér síðustu ár, útlit er fyrir að ferðamönnum til Vestmannaeyja muni fjölga á næstu árum en ferðaþjónusta er stærsti atvinnuvegurinn á eftir sjávarútvegi. Eyjarnar eru t.a.m. á lista New York Times yfir áhugaverða áfangastaði 2024. Ég tel það nokkuð ljóst að stækkun iðnaðarsvæðis við innsiglinguna, nýja hraun og Heimaklett muni hafa verulega neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna sem telja sig vera hingað komna til að upplifa einstaka og ósnortna náttúru. Það verður ekki bæði sleppt og haldið og ef byggja á upp vænlega ferðaþjónustu til framtíðar þarf að huga að náttúrunni og ímynd okkar sem áfangastaðar.

Til að sporna við plássleysi við og á höfninni þá er ýmislegt annað sem má horfa til. Nú þegar er komin framkvæmdaráætlun um lengingu Nausthamarsbryggju til austurs um 70m og svo er stytting Hörgeyragarðs á skipulaginu fyrir árið 2024 sem myndi gera stærri skipum kleift að snúa í höfninni.
Stækkun gámaskipa er mögulega framtíðin en er það raunverulega vandamál sem snertir Vestmannaeyjar? Ég tel að skoða þurfi annars konar leiðir varðandi gámaflutninga til og frá Vestmannaeyjum en þessar.

Við erum nú þegar að berjast fyrir því að Landeyjahöfn verði lagfærð og gerð að heilsárshöfn með tilheyrandi kostnaði og við megum ekki gleyma voninni um að fá hér göng einn daginn. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að ef að þessi stórskipahöfn verður að veruleika er hún mjög kostnaðarsöm og að öllum líkindum myndu göng vera út af borðinu.

Af hverju ekki að veðja á náttúruna í þetta sinn með því að viðurkenna þann auð sem er fólginn í henni og sögu eyjanna okkar? Ég held að við hljótum að geta verið með góðan og blómstrandi sjávarútveg eins og við höfum haft hingað til án þess að eyðileggja ásýnd Eyjanna, ásýnd okkar ástkæra Heimakletts og upplifun komandi kynslóða til að njóta náttúrunnar eins og við höfum gert hingað til. Atvinnulíf mun halda áfram að blómstra hér bæði á sjó og landi, í sjávarútvegi og ferðaþjónustu án þess að koma þurfti til þessara óafturkræfu náttúruspjalla.

Heimaey er ekki stór þó hún eigi stóran hlut í hjörtum okkar. Það safnast þegar saman kemur og við skulum átta okkur á því að verði af þessum stóru framkvæmdum verða þær aldrei teknar til baka, innsiglingin og ásýnd Heimakletts verður aldrei aftur sú sem hún var.

Ég vil hvetja alla þá sem hafa einhverja skoðun á og vilja koma henni á framfæri á meðan þetta mál er enn á fyrstu stigunum, með því að senda póst á dagny@vestmannaeyjar.is fyrir mánudaginn 26. febrúar ‘24

Höf: Bjartey Hermannsdóttir

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search