Laugardagur 13. ágúst 2022

- Bæjarfjölmiðillinn í Vestmanneyjum -

Var farinn að taka á móti börnum barna úr söngvakeppninni

Söngkeppni barna er fyrir löngu orðin órjúfanlegur partur af dagskrá Þjóðhátíðar. Þar hefur einn staðið öðrum lengur í brúnni. Dægurlaga söngvarinn ljúfi frá Hoffelli, Þórarinn Ólason. Í ár verður hins vegar enginn Tóti á dagskrá Þjóðhátíðar, í fyrsta skipti síðan elstu menn muna.

„Ég kom fyrst fram á Þjóðhátíð 1982 þegar við í hljómsveitinni Radíus. Við spiluðum á móti Stuðmönnum sem tóku einmitt upp myndina  Með allt á hreinu það ár,“ sagði Tóti í léttu spjalli við Tígul. „Nei, ég er að ljúga,“ greip tóti fram í fyrir blaðamanni. „1980 fengum við peyjarnir að taka í hjá þeim sem sem voru að spila þá. Mig minnir að þetta hafi verið Brimkló. Þetta voru ég, Birkir, Ómar, Högni og Viggi.“ 

Eftir þetta var Tóti viðloðinn dagskránni með einum eða öðrum hætti. „Ég man til dæmis árið 1988, þá bjó ég uppi á landi en var fenginn til að koma og syngja með Greifunum sem þá voru eina hljómsveitin sem spilaði þá hátíðina. Var ég fenginn til að syngja með þeim þar sem Felix Bergsson, aðalsöngvari sveitarinnar, hafði einfaldlega hætt,“ sagði Tóti og glotti. „Ég held ég hafi aldrei fengið eins vel greitt fyrir framkomu á Þjóðhátíð.“

Á dagskrá í rúm 20 ár í röð

Hljómsveit Tóta, Prestó, sá svo um litla pallinn í tvö ár kringum 1992. Árið 1998 mætti svo Dans á rósum fyrst á pallinn og spilaði ásamt Hálft í hvoru sem þá sá einmitt einnig um Söngvakeppni barna sem var endurvakin eftir töluvert hlé. „Þá skráðu börnin sig bara í Dalnum og mætti beint upp á svið og tilkynnti hljómsveitinni hvaða lag þau ætluðu að syngja. Sem tókst með svona misgóðum árangri. Árið eftir tókum við í Dans á rósum keppnina svo að okkur og vildum leggja aðeins meiri metnað í þetta. Vikan á fyrir Þjóðhátíð fór því meira og minna í æfingar með börnunum sem tóku þátt.“ Þetta sagði Tóti hafa gefist vel enda börnin mikið öruggari þegar kom að stóru stundinni í Herjólfsdal.

„Eftir þetta stóðum við vaktina bæði á litla pallinum og í söngvakeppninni allt til ársins 2016 sem var síðasta árið sem Dans á rósum spilaði. Fyrir utan eitt ár, 2002, að Hljómsveit Birkis Gunnlaugssonar sá um keppnina. En við fengum hana aftur í hendurnar árið eftir.“ 

Komið gott

Þrátt fyrir að hljómsveit Tóta kæmi ekki lengur við sögu á Þjóðhátíð var Tóti hvergi hættur. „Gísli Stefánsson sem tók við söngvakeppninni fékk mig með sér í að aðstoða krakkana næstu hátíðir. Það gefur manni bara svo mikið að sjá gleðina og stoltið sem skín úr augum barnanna þegar þau hafa lokið við að syngja lagið sitt,“ sagði Tóti fullur stolti. „En þegar ég sá að ég var farinn að taka á móti börnum barna sem höfðu tekið þátt í keppninni eitthvert árið ákvað ég að þetta væri bara komið gott og tími til að hleypa nýju blóði að. Ég veit að hún Svanhildur á eftir að pluma sig vel í þessu.“  sagði Tóti að lokum.

Þrátt fyrir að þetta verði í fyrsta Þjóðhátíðin í nær fjörtíu ár sem Tóti er ekki á dagskrá Þjóðhátíðar verður hann áfram viðloðinn henni. En hann mun vera að keyra Strætó alla helgina og hver veit nema að hann taki lagið. Ef ekki í Strætó þá kannski hann birtist af gömlum vana á sviði á litla pallinum snemma á  mánudagsmorgni.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is