22.06.2020
Sjómannslífið hefur heillað margt ungt fólk í gegnum tíðina, en þeir sem áhuga hafa á að leggja sjómennskuna fyrir sig geta skráð sig í Skipstjórnarskólann og lært þar um hinar margvíslegu hliðar fagsins.
Einn af útskriftarnemendum skólans í ár er hinn 18 ára gamli Einar Bergmann Daðason, en hann var skemmtanastjóri nemendafélags skólans á síðasta skólaári og er jafnframt fyrrverandi gjaldkeri sama félags.
Þegar 200 mílur slógu á þráðinn til Einars var hann að sjálfsögðu staddur úti á sjó, nánar tiltekið á varðskipinu Tý. „Ég var að útskrifast á föstudaginn síðasta og er núna í afleysingum á varðskipinu sem háseti. Það má segja að ég sé á milli skipa, þar sem ég er ekki kominn með neitt fast pláss í sumar,“ segir Einar.
Mesta reynslu hefur Einar að eigin sögn af störfum um borð í farþegaferjum, skipum eins og Breiðafjarðarferjunni Baldri og Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi.
En hvenær kviknaði áhuginn á sjómennskunni?
„Sjómannsferillinn hófst þegar ég fékk vinnu í eldhúsinu á Baldri þegar ég var í níunda bekk og bjó í Stykkishólmi. Svo var ég einnig að veiða bláskel og grásleppu á bát sem gerður var út frá Hólminum.“
Þá segist Einar einnig hafa tekið nokkra túra á togara.
Fjölskylda Einars flutti til Vestmannaeyja í hitteðfyrra og þar tók stjúpfaðir hans við sem skipstjóri á Herjólfi. „Ég fylgdi honum bara um borð.“
Vegna veirunnar hefur Einar ekki fengið pláss á Herjólfi nú í sumar, eins og upphaflega stóð til. „Það setti strik í reikninginn.“
Störfin sem Einar vann á Herjólfi voru að hans sögn aðallega lestun og afferming skipsins, einkum af bíladekki. „Svo var maður talsvert í viðhaldsvinnu, að mála og halda öllu tipptopp.“
Lesa má allt viðtalið við þennan flotta eyjapeyja inn á mbl.is forsíðumyndin er frá instagram, feðgarnir á Herjólfi við vinnu.