Þriðjudagur 5. desember 2023

Útkall – Ótrúlegar sögur – Oft mátti litlu muna hjá Tedda

06.12.2020

„Þegar jörð skelfur, eldstrókar rísa með hvellum og drunum og fimm þúsund manns eru í stórhættu við upphaf eldgossins á Heimaey siglir Gjafar VE 300, lítill loðnubátur, út úr Friðarhöfn með 430 manns.

Þrengslin um borð eru gríðarleg en þremur vikum síðar lendir áhöfnin í mannskaðaveðri við leit að fimm Íslendingum og fimm Færeyingum á gúmbjörgunarbátum sem saknað er á miðju Atlantshafi. 

Og réttum mánuði eftir að eldgosið hófst strandar Gjafar í foráttubrimi fyrir utan Grindavík. Skipverjar berjast upp á líf og dauða meðan hugrakkir félagar í Björgunarsveitinni Þorbirni reyna að bjarga þeim.

Hinn farsæli útgerðarmaður og vélstjóri Theodór Ólafsson er hér að lenda í sínum þriðja skipskaða, og í annað skiptið með bræðrum sínum úr Eyjum. Skipverjar og björgunarmenn segja hér frá hetjulegri baráttu.

Árið 1984 lenda Theodór og 14 manna áhöfn hans á Sæbjörgu VE 56 aftur í stórkostlegri lífshættu þegar hún verður vélarvana í óveðri við Hornafjörð. Báturinn nálgast hratt ógnarlegt brimið í klettunum og stórgrýtinu á Stokksnesi og Hafnartanga áður en hann strandar.

Hér lýsa björgunarsveitarmenn á Höfn ótta sínum um að öll áhöfnin kynni að farast og stórkostlegri framgöngu við björgunarstörf.“

Þannig er söguþráðurinn í 27. Útkallsbók Óttars Sveinssonar, Á ögurstundu sem er þriðja bókin þar sem Eyjamenn eru í aðalhlutverki. Þær fyrri voru um upphaf Heimaeyjargossins og Pelagusslysið 1982 sem kostaði fjögur mannslíf.

Í þessari bók er saga mikilla örlaga og komið víða við og margir koma við sögu. Kannski besta bók Óttars frá upphafi en  Útkallsbækur Óttars eru vinsælar og hafa verið gefnar út víða um heim.

 

Saga mikilla örlaga

„Skömmu fyrir jól 1954. Í kapphlaupi við tímann í hamfaraveðri. Fimm Íslendingar eru að leggja af stað áleiðis til Íslands með nýjan fiskibát, Frosta VE 363  frá skipasmíðastöðinni Djupvik á eynni Tjörn í nágrenni Gautaborgar í Svíþjóð. Tvö þúsund kílómetra sjóleið er fram undan til Vestmannaeyja. Það á að reyna að ná heim fyrir jól. Þetta var mikil svaðilför en heim komust þeir en þrettán mánuðum og þrettán dögum eftir að hann var afhentur í Svíþjóð strandaði Frosti á Landeyjarsandi. Fimm voru í áhöfn og komust allir í land og til byggða.

Saga Theódórs, sem seinna fór í útgerð með Hilmari Rósmundssyni skipstjóra og mági sínum er rauði þráðurinn í bókinni. Hann átti eftir að lenda fjórum sinnum í sjávarháska þar litlu mátti muna að illa færi. Hilmar og Theódór áttu og gerðu út Sæbjörgu VE en þær urðu þrjár. Mið-Sæbjörg var mikið aflaskip á árunum í kringum 1970. Var hæst yfir landið á vertíðinni 1969 með 1665 tonn en Sæbjörg var aðeins 67 tonn.

Vélarvana utan við brimgarðinn

Þriðja og síðasta Sæbjörgin þeirra, öflugt uppsjávar- og vertíðarskip strandaði austan við Hornafjörð í desember 1984 og lauk þar með útgerðarsögu Hilmar og Theódórs. Áhöfnin komst öll í land við mjög erfiðar aðstæður og var björgunin mikið afrek.

Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari með meiru var í áhöfn Sæbjargar og segir svo frá þar sem hann stóð frammi á við akkerisspilið og virti fyrir sér hrikalegt brimið við Stokksnesið:

„Á meðan við biðum varð mér hugsað til þess að síðast þegar ég upplifði að skip lenti í nauð, á vertíð þremur árum áður, var ég á báti sem reyndi að koma öðrum til bjargar. Þetta var Dala-Rafn VE 130 og við reyndum að taka Heimaey VE 1 í tog. En þá slitnaði vírinn og Heimaey strandaði í Þykkvabæjarfjöru án þess að við gætum komið til bjargar.

Tveir Eyjamenn fórust. Það var hræðilegt. Nú sá ég fyrir mér varnarlausa mennina á Heimaey. Átti eitthvað svipað eftir að gerast hjá okkur núna? Ég gerði mér fulla grein fyrir því að við vorum í mjög mikilli hættu.“

Til móts við það óumflýjanlega

Theodór Ólafsson var nú orðinn þess fullviss að ekki væri hægt að gera við vélina. Hann ákvað að fara upp í brú og ræða við Ögmund skipstjóra:

„Við ræddum saman um eitt og annað, hvað væri hægt að gera. Bæði akkerin voru úti. Við töluðum um hvað við gætum gert ef til þess kæmi að við þyrftum að losna allt í einu við þau. Skurðtæki var tilbúið til þess að skera á keðjurnar. En það var líka hægt að sleppa þeim með einu handfangi. Þetta var tilbúið ef á þyrfti að halda.“

Sæbjörgina rak stjórnlaust áfram í miskunnarlausum öldunum og Stokksnesið var óþægilega nálægt. Ögmundur skipstjóri horfði á brimsorfna klettana nálgast. Þeir voru aðeins steinsnar frá veltandi bátnum:

„Ég vissi að það yrði aldrei hægt að bjarga okkur ef við lentum uppi í Stokksnesinu, við myndum allir farast við það að lenda með afli utan í klöppunum. En svo rak okkur fram hjá nesinu – það munaði ekki nema um einni bátslengd að við lentum uppi á því!“

Óskari Pétri var létt og nú fylgdist hann með áhöfn Erlings KE reyna að koma annarri taug yfir í Sæbjörgina:

„Skipverjar á Erling reyndu enn að koma dráttarvír yfir til okkar. Þeir fylgdu okkur alveg að grunnbrotunum fyrir utan Stokksnesið. En þessar tilraunir tókust ekki, aðstæðurnar voru orðnar svo erfiðar. Það var orðið vonlaust að reyna að bjarga skipinu og okkur rak hratt að landi. Nú sannfærðist ég um að skipinu yrði ekki bjargað, við myndum bara stranda.“

Gekk yfir skipið

Ögmundur skipstjóri vildi hafa áhöfn sína neðan þilja í skjóli:

„Þegar ég sá að ég var að missa skipið lét ég alla karlana fara niður og vera þar af því að sjórinn gekk svo mikið yfir skipið. Þá væru þeir í minni hættu á að slasast. Ég vildi heldur ekki að þeir væru uppi í brú, það var meiri hætta þar. Teddi var hjá mér og stýrimennirnir. Mér fannst við hafa verið heppnir að lenda ekki utan í Stokksnesinu.“

Þórir Andrésson matsveinn var niðri í borðsal með skipsfélögum sínum:

„Okkur var sagt að fara niður í messa og svo yrðum við að halda okkur fast þegar skipið tæki niðri í fjörunni. Ég hellti upp á kaffikönnuna og hugsaði um konuna mína og barnið og fjölskylduna. Það var óþægilegt að vita af því að skipið væri stjórnlaust. Aðalvélin var ekki lengur í gangi og þögnin sem því fylgdi var ekki góð. Skipið veltist bara til og frá og ekkert var hægt að gera annað en bíða. Við höfðum ekki hugmynd um hvar skipið myndi lenda eða hvernig hægt yrði að bjarga okkur.“

Rak að stórgrýttir fjörunni

Uppi í brú fylgdust Ögmundur skipstjóri, Theodór og stýrimennirnir tveir með reki bátsins. Ögmundur óttaðist það mest nú að Sæbjörgina myndi reka að Hafnartanga:

„Okkur bar austur á sjávarföllunum. Við vorum fyrst þvert út af Stokksnesi en svo rak okkur hratt upp að landi. Eftir það rak okkur um stund með landinu. Nú áttum við ekki langt upp í stórgrýtta fjöruna á Hafnartanga. Þangað hefði enginn getað sótt okkur.“

Ögmundur sá að báturinn stefndi nú inn á Hornsvík:

„Fyrst leit út fyrir að okkur myndi reka upp í stórgrýtið við Hafnartanga en svo fór ekki. Þegar við komum inn á Hornsvíkina minnkaði rekið. Nú kviknaði hjá mér dálítil von um að skipið myndi stöðvast – ef akkeriskeðjurnar héldu. Ég sagði áhöfninni að taka til öll verðmæti sem þeir gætu haft á sér þegar við yrðum dregnir í land, vegabréfin sín, ökuskírteini og peninga. Skipið var að breyta um stefnu, nú rak okkur milli skerja og upp í Hornsvík.“

Vond upplifun

Óskar Pétur fann að nú var eitthvað að gerast sem myndi ráða örlögum Sæbjargar og áhafnarinnar:

„Við fundum þegar við komum inn í grunnbrotin í brimgarðinum. Svo fór báturinn að taka niðri með miklum hávaða, það var eins og hann öskraði á mann þegar hann skall þarna niður í fjöruna. Þetta var afar vond upplifun því að auðvitað eiga skip aldrei að kenna botns. Þetta voru þungir dynkir, sarg og skruðningar, allt mjög óraunverulegt og ógnvekjandi.

Fyrst tók skipið niðri aftast. Svo komu fleiri högg og það fór að snúa sér. Loks endaði Sæbjörgin á skeri, það var greinilega að koma gat á skipið. Svo fór hún að hallast mikið í stjórnborða og það hríslaðist um mig ónotatilfinning. Það er vont að stranda en þegar við bætist svona mikill halli á skipinu verður það enn verra. Þarna var báturinn okkar fastur í þessari hallandi stöðu meðan brimið skall stöðugt á skrokknum.“

Ögmundur skipstjóri var í sambandi við björgunarmenn í landi:

„Þegar við strönduðum kom strax gat á Sæbjörgina. Björgunarsveitarmennirnir töluðu um að þeir vildu bíða með björgun þangað til að birti. En ég sagði nei. Mér fannst það ekki koma til greina því að gat var komið á skipið og aðstæður gátu mjög fljótt breyst til hins verra.“

Trúði því að þeir myndu bjargast

Komið var að Óskari Pétri að fara í björgunarstólinn. Heima hjá honum í Keflavík hafði Torfhildi Helgadóttur, konu hans, sem beið heima með fjögurra ára son þeirra, verið gert viðvart um þá hættu sem maður hennar var í:

„Ég frétti þetta frá tengdaforeldrum mínum, að Sæbjörgin hefði strandað og það væri verið að reyna að bjarga skipverjunum. Ég gekk stöðugt fram og aftur um gólf heima, bað fyrir þeim öllum og trúði því að þeir myndu bjargast. Það var erfitt að bíða svona því að þetta var svo tvísýnt, og hræðilegt að vera svona langt í burtu og geta ekkert gert.“

Eins og í tívolíi

Óskar Pétur var tilbúinn að vera dreginn í land:

„Þegar ég var dreginn lyftist Sæbjörgin upp og við það slaknaði á tauginni. Ég sá sjóinn nálgast mig á ógnarhraða og þóttist viss um að ég lenti í briminu. Brókin sem hékk niður úr björgunarhringnum sem ég sat í skarst upp í klofið svo að það var sárt að sitja þarna. Stígvélin mín snertu sjávarflötinn og ég lyfti fótunum eins mikið upp og ég gat. Á sama augnabliki féll Sæbjörgin aftur í sína fyrri stöðu og ég skaust leifturhratt hátt upp, snerist í loftinu og fór alveg á hvolf. Þetta var eins og í einhverju tívolítæki. Ég hélt að ég myndi fara heilan hring en hrökk aftur í sitjandi stöðu. Þetta gerðist ótrúlega snöggt, nú nálgaðist fjöruborðið hratt og þar biðu kröftugir björgunarsveitarmenn og drógu mig upp á land.“

Frækileg björgun

Hlýhugur og þakklæti var efst í huga Vestmannaeyinga eftir að allri áhöfn Sæbjargar VE 56 var bjargað. „Frækileg björgun,“ skrifaði Morgunblaðið meðal annars og aðrir fjölmiðlar tóku undir. Útgerðarmennirnir og eigendur bátsins, þeir Theodór Ólafsson og Hilmar Rósmundsson, skrifuðu þakkarorð til Hornfirðinga og gáfu björgunarsveitinni nokkrar krónur sem örugglega hafa verið fleiri en færri.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is