Miðvikudagur 24. júlí 2024

Upphafið 2020

Jólastressið yfirstaðið og eflaust allir tilbúnir í að koma öllu aftur í rútínu á komandi ári. Árin líða svo hratt, allir að tala um hraðann og tímaleysið og svo er komið enn eitt árið og fullt af hlutum sem okkur tókst ekki að klára á síðasta ári og við byrjum nýtt ár með því að hafa áhyggjur af því.
Ég skora á þig að núllstilla og fara inn í 2020 með meiri meðvitund um streituna í þínu lífi.

Gefðu þér tíma, sestu niður með sjálfum þér og spurðu þig „hvernig minnka ég streituna í lífi mínu þetta árið“ ?
Í krefjandi verkefnum og viðvarandi aðstæðum sem við komumst ekki hjá að takast á við þurfum við að taka ábyrgðina í okkar hendur, þekkja rótina af streitunni, horfa aðeins inn á við og koma auga á það afl innra með okkur sem keyrir upp stressið og kvíðann. Hvert er raunverulega vandamálið? Hvað get ég gert? Er til lausn?


Setja sér upp forvarnaráætlun á fyrsta stigi með því að fjarlægja eitthvað í nærumhverfi okkar sem veldur streitu, einfalda lífið og ekki vera alltaf grípa inn í þegar vandamálið er komið. Með því að koma auga á orsökina getum við komið í veg fyrir afleiðinguna.
Ef ákveðnar aðstæður, verkefni, hlutverk eða fólk veldur þér streitu þarftu að skoða hvort þú getur fjarlægt slíka streituvalda úr þínu daglega lífi.
Lærðu að þekkja þín þolmörk, ekki fara yfir mörkin og lærðu að segja nei og ekki hafa áhyggjur af viðbrögðum annara.
Tímastjórnun er mikilvæg, settu þér upp plan til að skoða í hvað tíminn fer í og taktu út þættina sem er tímaeyðsla eða svokallaðir truflarar. Einblíndu á það sem er mikilvægt og því sem liggur á, settu annað til hliðar sem má bíða. Slæm tímastjórnun er formúla fyrir streitu.


Gott er að skrifa niður hluti í stað þess að vera sífellt að hafa áhyggjur af því að gleyma einhverju. Ræddu og viðurkenndu þolmörk þín, ekki velta þér bara upp úr í eigin hugarheim, óskaðu eftir aðstoð og sæktu í tengslanetið þitt. Sýndu sjálfum þér og aðstæðum meiri sveigjanleika og umburðarlyndi.
Settu upp tímalínu og spurðu þig „Er það sem stressar mig núna jafn mikilvægt á morgun? “ Víkkaðu sjónarsviðið og einblíndu ekki of mikið á smáatriðin, horfðu á heildarmyndina. Jákvæðni skiptir máli, að sjá verkefni sem áskorun en ekki ógn, sjá tilganginn á bakvið hvert verkefni og hvernig hver áskorun færir manni tækifæri.


Góðar leiðir til að verjast streitunni sem er út um allt er eftirfarandi:

 • Settu þig og velferð þína í forgang. Passaðu upp á að hvíla þig, sofa vel, hreyfa þig og tileinka þér heilbrigðan lífsstíl. Mikilvægt að styrkja þolvarnir og þá tekst þér betur að ráða við álag.
 • Dragðu mörk, lærðu að segja nei og taktu ákvarðanir á þínum eigin forsendum en ekki annara. Þú getur bara haldið ákveðnum fjölda bolta á lofti í einu, ekki fjölga þeim ef þú hefur ekki tök á því.
 • Sættu þig við ófullkomleikann og læru að draga úr óraunhæfum viðmiðum, frábært viðhorf er “good enough“ leiðin.
 • Gefðu þér smá slaka, ekki alltaf vera á hlaupum. Staldraðu við, náðu huganum inn í núlíðandi stund og dragðu djúpt andann.
 • Einbeittu þér að því sem þú hefur stjórn á, brettu upp ermar og gerðu eitthvað í því, ekki fresta því. Hættu að leyfa hlutum sem þú hefur enga stjórn á trufla þig, hausinn þinn þarf að læra að sleppa áhyggjum sem gagnast ekkert að hafa.
 • Sættu þig við vanmáttinn, öll erum við mannleg og þolum eitthvað upp að vissu marki. Einblíndu á það sem þú hefur og styrkleika þína.
 • Hugrekki þarf til að óska eftir aðstoð, sýndu hugrekki, felldu niður varnir og óskaðu eftir hjálp þegar þú finnur þörfina. Að upplifa yfirþyrmandi streitu er ekki góð tilfinning, maður sér ekki lausnir fyrir vandamálinu, en þá er gott að kalla á „hjálp“, afneitun er ekki góð.
 • Settu þér raunhæf viðmið og markmið sem eru nógu nálægt raunverulegri stöðu þinni. Ef þú setur markmið of langt frá þinni stöðu í dag er líklegt að þér fallist hendur og gefist upp að ná því markmiði. Gott er að brjóta vandamálið niður í viðráðanlegar einingar og komast hægt og rólega, skref fyrir skref að því markmiði sem þú hefur sett þér.
 • Virkni þín er mikilvæg streituvörn. Markviss hreyfing losar um streitu og eflir þolvarnir þínar. Hvaða hreyfing virkar fyrir þig hverju sinni er mikilvægt viðhorf, best er að hreyfa sig eitthvað smá frekar en ekki neitt, annars byggist streitan upp í líkama þínum.
 • Að sýna þakklæti hefur áhrif á framleiðslu endorfíns í líkamanum, aukið endorfín eykur á gleði og vellíðan. Horfðu á það sem þú hefur en ekki það sem þig skortir, sýndu því þakklæti.
 • Þín líðan á að vera á þinni ábyrgð, taktu þá ábyrgð á þessu ári!

Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir
www.hugarheimur.is

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

 • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
 • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
 • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
 • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
 • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search