01.03.2020 kl 21:42
Þriðja tilfelli kórónaveirunnar hefur nú greinst á Íslandi. Sú smitaða er kona á fimmtugsaldri en hún kom til landsins með flugi Icelandair frá München í gær. Hún hafði verið stödd á Ítalíu í skíðaferðalagi en flaug til landsins í gegnum Þýskaland.
Um er að ræða annað tilfelli veirunnar sem greinist í dag en tilkynnt var um fyrra smitið rétt fyrir klukkan 18. Sá fyrri sem greindist með veiruna var karlmaður á sextugsaldri sem kom til landsins með vél Icelandair frá Verona í Ítalíu. Hann hafði einnig verið í skíðaferðalagi.
Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum er líðan konunnar góð en hún sýndi dæmigerð einkenni sjúkdómsins COVID-19 sem veiran veldur og leitaði því til heilbrigðisyfirvalda. Allir þrír einstaklingar sem greindir hafa verið með veiruna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
Rögnvaldur Ólafsson, deildarstjóri almannavarna, segir í samtali við fréttastofu RÚV að hefðbundið ferli hafi farið í gang. Konan er núna í einangrun á heimili sínu og verður í lágmarkssamskiptum við aðra fjölskyldumeðlimi. Ekki er von á neinum nýjum niðurstöðum í kvöld úr sýnatökum en þær ættu væntanlega að liggja fyrir í hádeginu á morgun.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að þeim hafi ekki tekist að ná tali af öðrum farþegum í München-fluginu. Verið sé að afla þeirra upplýsinga. Fyrst þurfi að tala við þá farþega sem komu frá Veróna í gær og er sú vinna að klárast. Víðir segir að lögð verði áhersla á að ná tali af þeim sem sátu í tveimur sætaröðum fyrir framan konuna og tveimur sætaröðum fyrir aftan. Sýnið úr konunni var tekið seinnipartinn í dag ásamt nokkrum öðrum.
Búið að skilgreina Ítalíu sem hættusvæði.
Sóttvarnalæknir hefur, í samráð við almannavarnir og borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, skilgreint Ítalíu sem hættusvæði. Þýskaland er hins vegar ekki skilgreint hættusvæði. Því er ekki talin þörf á sóttkví fyrir þá farþega sem komu frá Munchen með Icelandair í gær nema þá sem komu frá Ítalíu.
Hins vegar mun smitrannsóknateymi almannavarna og sóttvarnalæknis hafa samband við þá farþega sem útsettir voru fyrir smiti í flugvélinni og upplýsa þá um helstu staðreyndir í tengslum við COVID-19, persónulegt hreinlæti og síma 1700.
Fram kemur í tilkynningu frá samhæfingarstöðinni að stjórnendur Icelandair hafi fundað með sóttvarnalækni og fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í kvöld vegna málsins. Á meðal þess sem var ákveðið á þeim fundi var að áhafnir Icelandair munu dreifa upplýsingamiðum til allra þeirra sem ferðast munu með flugfélaginu til Íslands.
Flugfélagið hefur ákveðið að áhöfnin í vél Icelandair sem kom frá Veróna í gær fari í fjórtán daga sóttkví sem og starfsmenn flugþjónustu sem einnig voru með í för. Flugmennirnir þurfa hins vegar ekki að fara í sóttkví, samkvæmt skriflegu svari upplýsingafulltrúa Icelandair við fyrirspurn fréttastofu.
Farþegarnir fara ekki allir í sóttkví
Tekin hefur verið ákvörðun um að farþegarnir sem voru með konunni um borð í vélinni þurfi ekki allir að fara í sóttkví. Aðeins munu þeir sem voru á Ítalíu áður en þeir fóru í vélina sem kom frá München vera settir í sóttkví. Hins vegar mun smitrannsóknateymi almannavarna og sóttvarnalæknis hafa samband við þá farþega sem útsettir voru fyrir smiti í flugvélinni og upplýsa þá um helstu staðreyndir í tengslum við COVID-19 .
„Sóttvarnalæknir minnir á að einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum, það er Ítalíu, Kína, Suður Kóreu og Íran og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið skilgreind áhættusvæði, sjá leiðbeiningar til einstaklinga í sóttkví. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum innan 14 daga, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur, “ segir í tilkynningu frá almannavörnum.
Greint er frá þessu á vef fréttablaðsins rétt í þessu og á Rúv.is