18.09.2020
Býður upp á einu öruggu utan-landsferðirnar
Það var mikið högg fyrir Vestmanna-eyjar þegar flugfélagið Ernir tók ákvörðun um að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja um síðustu mánaðamót. Um svipað leyti var öllu starfsfólki Herjólfs ohf. sagt upp vegna erfiðrar stöðu félagsins. Ástæðan hjá báðum er helst færri farþegar og minni flutningar sem rekja má til heimsfaraldursins sem kenndur er við Covid 19. Herjólfur siglir áfram en síðasta flug Ernis var föstudaginn 4. september.
Bæjarstjórn lítur stöðuna í sam-göngum mjög alvarlegum augum og hefur rætt við þingmenn kjördæmisins, samgönguráðherra, fjármálaráðherra og vegamálastjóra. Í samtali við Tígul á mánudaginn staðfesti Íris Róbertsdóttir, bæjar-stjóri að þreifingar og vinna séu í gangi. „En það er ekkert sem getur orðið opinbert á þessum tímapunkti,“ sagði Íris. Svipað kom fram hjá Ásgeiri Erni Þorsteinssyni, samskipta- og markaðsstjóra hjá Erni. Hann kannaðist við að málið sé rætt sem gefur vonir um að lausn finnist.
Í bókun bæjarráðs í síðustu viku er áréttað mikilvægi þess að áætlunarflug sé til og frá Vestmannaeyjum og óskað eftir að ríkið og Vegagerðin leysi úr málinu fljótt og örugglega. „Ríkið ber ábyrgð á að tryggja samgöngur á landinu. Vestmannaeyjabær gerir þá eðlilegu kröfu að reglulegum flugsamgöngum verði komið á að nýju eins fljótt og mögulegt er.“
Markviss markaðssetning
Ferðmálsamtök Vestmannaeyja sendu frá sér ályktun á mánudaginn. Þar segir m.a. að besta leiðin til að endurreisa flugsamgöngur sé að skapa eftirspurn eftir Vestmanna-eyjum. „Markaðssetja þær markvisst, skilgreina ferðaþjónustuna sem iðnað og tækifæri til uppbyggingar og atvinnusköpunar. Nýta þau augljósu tækifæri sem felast í magnaðri náttúru og merkilegri sögu sem Vestmannaeyjar eiga.
Virkja mun betur þá fjárfestingu sem liggur nú þegar í ferðaþjónustunni, samtals um sex milljarðar, í söfnum, gistingu, þjónustu og afþreyingu. Horfa til framtíðar, byggja upp og stækka,“ segir í ályktuninni og bent á að reynslan sýni að tilraun í markaðssetningu fyrir innan-landsmarkað í sumar hafi gefist mjög vel og reynst góð fjárfesting. Halda þurfi áfram á sömu braut. „Í þetta þarf eingöngu framtíðarsýn og kjark til að framkvæma hana.“
Mikið í húfi
Fólk í ferðaþjónustu í Vestmanna-eyjum hefur eðlilega áhyggjur af stöðunni. „Maður gat séð þetta nokkuð fyrir. Þetta var þungur rekstur hjá þeim og ég var mest hissa á því hvað þeir voru búnir að hanga lengi á þessu. En maður sýnir þessu fullan skilning,“ sagði Gunnar Ingi Gíslason, hjá Víkingferðum þegar hann var spurður að því hvort ákvörðun Ernis hefði átt að koma á óvart.
Hann sagðist reikna með því að róið sé að því öllum árum að leysa þennan hnút. Mikið sé í húfi, það finni hann á eigin skinni. „Núna erum við að bjóða upp á hópferðir til Vestmannaeyja fyrir minni hópa. Stíla inn á saumaklúbba og vinahópa og höfum náð frábærum samningum við hótel og veitingastaði. Getum boðið mjög góð verð og alveg synd að geta ekki flogið fólkinu yfir. Þó fluginu sé bætt inn í er þetta mjög hagstæður pakki. Ég held að ég sé eina ferðaskrifstofan á landinu sem er að bjóða upp á öruggar utanlandsferðir. Engin skimun, engin sóttkví, bara stuð og stemmari sagði Gunnar Ingi.
Það er ljóst að mikil vinna er framundan að koma áætlunarflugi aftur í gang. Ernir njóta trausts og velvilja í Eyjum en dæmið verður að ganga upp. Bæjarstjórn hefur staðið saman í þessum slag sem er vísasta leiðin til árangurs. Gangi það ekki mun mörgum bregða við að geta ekki flogið til og frá Eyjum í vetur.
– Ómar Garðarsson