Undirstaða alls

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða velmegunar. Breyttir tímar kalla á nýja nálgun og nýjar áherslur.

Á núgildandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 er að finna aðgerð B.7. Störf án staðsetningar. Verkefnismarkmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki.

Þrátt fyrir framangreinda stefnu hafa stjórnvöld sótt hart að því flytja ýmsa opinbera þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum síðustu daga að enn og aftur er hafin barátta um sýslumannsembættin og eflaust eiga slík sameiningaráform eftir að teygja sig í lögregluembættin, dómstólana og aðra þjónustu á vegum hins opinbera.

Við þurfum að halda áfram að standa vörð um þau störf sem hér eru en varnarleikur einn og sér nægir ekki heldur þarf að sækja fram þar sem sóknarfæri skapast. Til að tryggja samfélagi okkar áframhaldandi velsæld og þjónustu þarf að spyrna við óhagkvæmri samþjöppun starfa á einn stað og vinna markvisst að því að nýta framfarir í tækni- og þjónustugeiranum og sækja hingað störf.

Við þurfum að vinna ötullega að því að fá hingað sérfræðistörf og hafa ber í huga að sérfræðistörf eru ekki aðeins bundin við opinber störf. Við þurfum að gera það aðlaðandi fyrir einstaklinga að flytja störfin sín með sér til Vestmannaeyja og hvetja fólk sem getur unnið vinnu sína óháð staðsetningu til að velja Vestmannaeyjar. Þá þurfum við að tryggja endurnýjun í iðngreinum og hefja iðnnám í Vestmannaeyjum til vegs og virðingar.

Vinnslustöðin hefur ekki látið sitt eftir liggja á því sviði og hefur boðið námsstyrki auk loforðs um starf að námi loknu sem er frábært framtak og til þess fallið að laða að ungt og duglegt fólk sem mun skjóta hér rótum. Ég tala af eigin reynslu þegar kemur að því að velja Vestmannaeyjar. Vinna eiginmanns míns er þess eðlis að hann getur búið hvar sem er í heiminum og við erum oft spurð að því hvernig okkur detti í hug að búa í Vestmannaeyjum, vindasamasta stað í Evrópu. Svarið er einfalt! Samfélagið er einstakt, náttúrufegurðin engri lík og afþreying á heimsmælikvarða. Hver myndi ekki velja gönguferð um náttúruperlu eða tuðruferð fram yfir keilu eða Kringluferð.

Að mínu mati er tími ein verðmætasta eign almennings í nútímasamfélagi. Ég fullyrði það að með búsetu í Vestmannaeyjum græði fólk tvo klukkutíma á dag sem annars færu í ferðir til og frá vinnu og aðrar útréttingar. Þessir tveir klukkutímar eru verðmætir ekki bara fyrir þig og þína heldur geta þeir stuðlað að betri lýðheilsu og almennri vellíðan þar sem þennan tíma má nýta til þess að styrkja tengsl við vini og vandamenn, næra líkama og sál eða hreinlega slaka á og njóta Eyjanna.

Sæunn Magnúsdóttir
Höfundur sækist eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search