14.05.2020
Uppfært kl 23:36
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 4.maí síðastliðinn var lögð fram skýrsla vinnuhóps um umhverfisstefnu Vestmannaeyjabæjar.
Ekki var vinnuhópurinn á sama máli með niðurstöðuna. Blaðamaður Tíguls hafði samband við Jónu Sigríður Guðmundsdóttur og Margréti Rós Ingólfsdóttur sem báðar eru í Umhverfis og skipurlagsráði og fékk þeirra hlið á málinu, þær eru báðar í skipuðum vinnuhóp ásamt Jóhanni Jónssyni forstjóra þjónustumiðstöðvarinnar.
Jóna Sigríður Guðmundssóttir formaður umhverfis og skipurlagsráðs segir aðspurð um vinnulag við umhverfirs og auðlindastefnu, og ástæðu þess að farið sé í þessa vinnu.
„Umhverfis- og auðlindastefna er ekki til hjá Vestmanneyjabæ. Mikilvægt er fyrir okkur sem sveitarfélag að vita hvar við stöndum í umhverfis- og auðlindamálum, hvað við getum gert til að bæta okkur og hvað eru raunhæf markmið.
Á vinnufundi bæjarstjórnar við fjárhagsáætlunargerð var farið yfir mikilvægi þess að fara í vinnu við umhverfis- og auðlindastefnu og að sú stefna væri unnin af sérfræðingum sem væru með sérþekkingu á þessu sviði. Allir bæjarfulltrúar voru sammála um mikilvægi þess að fara í þessa vinnu og þess vegna gert ráð fyrir 5 milljónum í þetta verkefni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.
Skipaður var vinnuhópur sem leiðir vinnuna við gerð stefnunnar fyrir Vestmannaeyjabæ.
Í upphafi vinnunnar er mikilvægt að umhverfisgreining sé unnin til að hafa grunnpunkt sem áframhaldandi vinna byggir á. Í greiningarvinnunni verður notast við fyrirliggjandi gögn m.a. úr gildandi aðalskipulagi. Í framhaldinu er stefnan mótuð, markmið skilgreind fyrir sveitarfélagið og aðgerðaráætlun sett fram.
Mikilvægt er að umhverfis- og auðlindastefna fyrir Vestmannaeyjabæ sé unnin af sérfræðingum eins og umhverfisfræðingum, sem hafa sérþekkingu á málaflokknum. Starfsmenn umhverfis- og framkvæmdasviðs munu einnig koma að vinnunni ásamt skipuðum vinnuhópi.
Tilboð voru fengin frá fjórum aðilum, Eflu, Mannvit, Podium og Resorce.
Meirihluti skipaðs vinnuhóps lagði til að samið yrði við Eflu á grundvelli verkefnatillögu þeirra. Enda samræmist hún þeim metnaðarfullu áherslum og væntingum sem Vestmannaeyjabær hefur til vinnu á umhverfis- og auðlindastefnu.
Þetta er stórt og þarft verkefni. Mikilvægt er fyrir Vestmannaeyjabæ að vera með fast mótaða stefnu til framtíðar sem góð samstaða verður um og að hægt verði að vinna eftir og fylgja eftir með aðgerðaráætlun.“
Í framhaldi leitaði Tígll einnig til Margrét Rósar Ingjófsdóttur fulltrúa Sjálfsltæðisflokksins í umhverfis og skipurlagráði og spurði hana nokkrar spurningar um hennar sýn á vinnu við umhverfis og auðlindastefnuna.
- Af hverju ertu svona ósátt með að fá fagaðila til að vinna stefnuna, þegar það var búin að samþykkja það af allri bæjarstjórn í síðustu fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 að setja fjármagn í að vinna stefnuna?
Ég sit ekki í bæjarstjórn og var ekki einn af þeim aðilum sem samþykktu fjárhagsáætlun. Væri ég bæjarfulltrúi er ég ekki viss um að ég hefði samþykkt fjárhagsáætlun 2020 þar sem að þar er ýmislegt sem ég ætti erfitt með að skrifa upp á og samþykkja.
Ég get ekki annað en verið trú minni sannfæringu og ég vona að fólk virði það við mann í stað þess að gagnrýna.
- Ef ekki þessir fagaðilar taka þetta út, hverja sérð þá geta farið í málið ? Eru starfsmenn hjá Vestmanneyjabæ sem hafa sérþekkingu á þessum málun?
Að sjálfsögðu eru starfsmenn hjá Vestmannaeyjabæ sem hafa þekkingu á umhverfis- og auðlindamálum. Það myndi aldrei hvarfla að mér að halda öðru fram. Við erum t.d. með framkvæmdastjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs sem er með langa starfsreynslu sem slíkur, verkstjóra í áhaldahúsi sem starfar við umhverfismál allan ársins hring og það gerði forveri hans einnig. Í sveitarfélaginu sjálfu eru ýmsir fagaðilar og áhugamenn sem hafa án efa margt fróðlegt til málanna að leggja.
- Ef ekki hvernig sérðu þá aðila geta gert þetta faglega? Leita þeir ráðgjafar?
Ég treysti starfsmönnum til þess að vinna mál faglega og held að í öllum tilfellum leggi starfsmenn sveitarfélagsins sig fram við það að vinna mál faglega. Það er ekki óeðlilegt að leitað sé ráðgjafar við ákveðin atriði við gerð svona stefnu.
- Hvernig sérð þú fyrir þér að vinnulag við svona stefnu sé?
Ég sé fyrir mér að skipaður sé hópur, líkt og gert var nú, sem fengi það hlutverk að vinna stefnuna. Það væri gert með því að byrja á að taka saman þau gögn sem til eru hjá sveitarfélaginu, sem eru fjölmörg þrátt fyrir að meirihluti bæjarstjórnar segi annað. Bendi ég þar á t.d. nýtt aðalskipulag, umhverfisskýrslu því tengdu og skýrslu sem Hreggviður Norðdahl vann um efnisnám árið 2017. Í framhaldi væri hægt að skoða sambærilegar stefnur hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum og styðjast við þær til að marka okkar eigin.
Mér finnst eðlilegt að slík vinna sé leidd af formanni ráðsins og að meirihlutinn hér í bænum vinni þær stefnur sem þau kjósa að vinna eftir. Það er vinna að stjórna sveitarfélagi og til þess var fólk kjörið.
5. Finnst þér mikilvægt að vinna umhverfis-og auðlindastefnu fyrir Vestmannaeyjar?
Ég setti mig ekki upp á móti því að vinna vinnuna við stefnuna eins og áður hefur komið fram. Það er auðvitað huglægt mat hvers og eins hvað er mikilvægt og í hvað á að eyða peningum borgara og ég tel margt annað þarfara við skattpeninga okkar að gera á þessum tímapunkti.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér Umhverfisstefna-skýrsla-vinnuhópur.pdf
Forsíðumyndina tók hann Jón Magnússon