Karítas Þórarinsdóttir er 35 ára eyjamær sem hefur stundað skipstjórnarnám í Tækniskólanum
Hún er með C stigið í skipstjórn sem veitir henni stýrimannsréttindi en á aðeins tvo áfanga eftir í D réttindunum til að klára námið. Hún starfar nú á Herjólfi sem 2. stýrimaður. Einnig er hún menntuð íþróttakennari.
Karítas er í sambúð með Önnu Kristínu og eiga þær lítinn gutta, hann Hafþór Frank.
Blaðamaður Tíguls hafði samband við Karítas og fékk að heyra aðeins meira um námið.
Hvenær fékkstu áhugann á skipastjórnun?
Ég veit það ekki nákvæmlega. Þetta var tilfinning sem varð sterkari með með árunum og það var annaðhvort að gera eitthvað í þessu eða gera ekki neitt og sjá eftir því. Ég skráði mig því í námið til að athuga hvort að það ætti við mig og eftir það var ekki aftur snúið. Ég hefði heldur ekki séð eftir því ef það hefði ekki átt við mig. Ég þurfti bara að friða þessa sterku tilfinningu. Umhverfið í Eyjum hefur haft sterkustu áhrifin, alveg pottþétt. Ég er mikið náttúrubarn, náttúran hér hefur alltaf gefið mér eitthvað gott. Ég elskaði að fara út að sigla með pabba og mömmu á tuðru eða skemmtibáti. Upp á fjöllin og horfa yfir sjóinn eða að taka bryggjurúntinn eins og nánast allir gera hér. Svo þegar ég var að vinna í fiski hjá Guðmundu og Viðari hugsaði ég oft um að ég gæti gert þetta sama bara á sjó. Þetta er svona samansafn af áhrifavöldunum sem áttu þátt í ákvarðanatöku minni með námið.
Eru margar konur með þér í náminu?
Nei, við erum kannski 4-5 núna. Flestar starfandi á mismunandi skipum.
Hvað heillar mest við starfið?
Að taka þátt í að stýra skipi og öðlast reynslu þar, vera nálægt náttúrunni, spá í henni og siglingu skipsins. Það er ótrúlega fróðlegt og gaman að heyra reynsluboltana um borð tala um vindáttir, sjólag og hvernig best er að haga siglingunni. Einnig mjög gaman að vinna með góðu fólki og hitta nýtt fólk á hverjum degi, það gerist alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi um borð.
Verður þú einhvern tímann sjóveik?
Nei, kannski ekki á milli landeyja og Eyja. Gæti alveg orðið það á milli Eyja og Þorlákshafnar, sjóveiki er ekki að fara að stoppa mig, ég held bara áfram.