16.08.2020
Framleiðandinn ber allan kostnað
Starfsmenn Geisla og maður frá norskum framleiðanda rafhlaðna í nýja Herjólfi vinna nú að því að skipta um hluti í rafhlöðunum. Um er að ræða skinnur og er þetta mikið verk því alls eru 13 tonn af rafhlöðum í Herjólfi sem knýja skipið áfram. Þarf að taka þær í land og er verkið unnið á verkstæði Geisla.
„Það er álitið að ekki náist fullkomin leiðni með skinnunum sem eru í rafhlöðunum sem knýja skipið,“ sagði Steingrímur Svavarsson sem kemur að verkinu ásamt fjórum öðrum starfsmönnum Geisla og John frá framleiðandandum í Noregi. Og þetta er umfangsmikið verk sem tekur langan tíma. „Þetta eru 520 rafhlöður í skipinu, alls 13 tonn og þetta eru 1,3 tonn af kopar sem við erum að skipta um. Alls 52.800 skrúfur sem þarf að losa og skrúfa jafn margar í.“
Steingrímur segir þetta kosta stórfé og er verið að skipta úr skífum í ferjum í fleiri löndum. Tjónið er framleiðandans. Þetta hefur ekki áhrif á siglingar Herjólfs en skipt er út 22 rafhlöðum í dag og er búið að skipta um 44 og 480 eftir. Gert er ráð fyrir að þetta taki fimm til sex vikur.
„Með nýjum skinnum verður mælanleg leiðni meiri og betri og á rafmagn að endast betur á rafhlöðunum sem sparar olíukostnað,“ sagði Steingrímur að endingu.
Hér má sjá eitt af 520 batteríum, þessar skinnum þarf að skipta út, sex eru á hvorri hlið. Hópurinn sem er að vinna við þetta þessa daganna.