Við vorum sem betur fer heppnari en kollegar okkar í Reykjavík og Árnessýslu þrátt fyrir þurrk og mikin vind, en engu að síður hafði Neyðarlínan samband tvisvar sinnum eftir miðnætti.
Í fyrra skiptið var um að ræða eld í sinu á opnu svæði en þar hafði kviknað í út frá skottertum sem búið var að stilla upp í þurrum gróðrinum. Nálægir húsráðendur sýndu sem betur fer skjót viðbrögð og voru búnir að slökkva eldinn með garðslöngu áður en hann náði að breiða úr sér að einhverju ráði.
Í seinna skiptinu var tilkynnt um eld á körfuboltavelli Barnaskólans en á vellinum eru plastgrindur sem logaði vel í þegar slökkviliðsstjóri og lögregla mættu á svæðið.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn með handslökkvitækjum en ljóst er að skemmdir eru töluverðar. Upptök eldsins voru nokkuð greinileg en m.a. var búið að setja skottertu á völlinn sem hefur brunnið niður með þessum afleiðingum.
Mikið vantar enn upp á að fólk gangi tryggilega frá skottertum eftir notkun og bleyti vel í þeim en margir smáeldar loguðu á götum og gangstéttum um allan bæ í nótt, og þegar vindurinn blæs svona kröftuglega þá geta glæður borist töluvert langt með ófyrirséðum afleiðingum.
Þetta kemur fram á facebooksíðu Slökkviliðs Vestmannaeyja.




