Safnahús

Tvær dagskrár framundan um helgina í Safnahúsinu

Þrátt fyrir að vetur konungur sé nú á hátindi veldis síns viljum við í Safnahúsinu halda ótrauð áfram með sýningar og dagskrár. Mikið verður því um að vera um komandi helgi.

Handverkssýning á laugardaginn 4. febrúar kl. 16:00 í Einarsstofu
Fjöldi hagleiksmanna og –kvenna er að finna hér í Vestmannaeyjum. Fyrir fáeinum árum auglýstum við í samstarfi við Listvini Safnahúss eftir listaverkum kvenna sem þær væru tilbúnar til að sýna í Einarsstofu. Ætlunin var að safna saman verkum 100 kvenna í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna árið 2015. Skemmst er frá því að segja að 117 konur úr Eyjum lánuðu verk sín á sýninguna sem var ótrúlega áhrifarík innsýn í þá miklu listagrósku sem hér ríkir.
Nú er röðin komin að körlum en þar er þó annar háttur hafður á. Aðeins þrír hagleiksmenn voru beðnir um að sýna að þessu sinni og hugmyndin er að halda slíkum sýningum áfram með þátttöku karla og kvenna, barna og annarra kynja. Að þessu sinni draga eftirfarandi völundar fram dýrgripi sína: Kristján Egilsson (Kiddi á Náttúrugripasafninu), Kristmann Kristmannsson (Kristmann múrari) og Sigurður Óskarsson (Siggi á Hvassó).
Sýning þeirra opnar laugardaginn 3. febrúar kl. 16:00 og stendur fram til 19. febrúar eða til konudags.

Heilsudagur á sunnudaginn 5. febrúar kl. 13 á bryggjusvæðinu í Sagnheimum
Eitt af því sem einkennir Vestmannaeyjar er ríkuleg íþróttamenning. Vestmannaeyjabær er íþróttabær. Heilsuefling er lykillinn að eflingu íþróttaárangurs. En heilsuefling er einnig lykill að langlífi og bættu lífi. Ótrúlega mikið framboð er í Eyjum af margskonar tækifærum til heilsueflingar. Náttúran sjálf opnar faðm sinn með einu fegursta umhverfi sem býðst, félög og félagahópar eru hér til um nánast allar tegundir íþrótta- og heilsueflingar, fyrirtæki bjóða upp á fjölbreyttar æfingar með nýjustu tækjum og Vestmannaeyjar eru þátttakendur í verkefnum sem miða að því að efla og bæta líf og heilsu eldri borgara. Við viljum kynna fyrir ykkur sem mest af því sem er í boði í Eyjum með
heilsueflingardeginum undir merkinu og takmarkinu Að verða besta útgáfan af sjálfum sér.
Dagskráin hefst á sunnudaginn 4. febrúar kl. 13 með stuttum fyrirlestrum nokkurra valinnkunnra einstaklinga sem þekkja á eigin skinni hvað það er sem þarf að gera til að verða eigin besta útgáfa og að því loknu sýna sumir þeirra sem bjóða upp á ólíkar leiðir að bættu lífi af hverju þú ættir að koma og taka þátt í starfinu. Til að gefa þér sem mætir á sunnudaginn enn betra tækifæri til vaxtar og grósku munu fyrirtæki og félög í heilsurækt í Eyjum opna dyr sínar í næstu viku svo þú getir kannað hvort þar sé ekki einmitt sú áskorun og þau tækifæri sem geta gert þig að bestu útgáfunni af sjálfum þér eða sjálfri þér.

Blóðsykursmælingar í Safnahúsinu á sunnudaginn í boði Lions.
Í tilefni af Heilsueflingardeginum í Safnahúsinu á sunnudaginn býður Lionshreyfingin í Vestmannaeyjum upp á blóðsykursmælingu milli kl. 14:30 og  16:30. Upplagt tækifæri til að koma og taka stöðumat á heilsunni. Hjúkrunarfræðingur á staðnum með góð ráð og leiðbeiningar í framhaldi af mælingum.

Við hvetjum ykkur öll til að koma í Safnahúsið um helgina til að sjá glæsilegt handverk heimamanna sem og til að upplifa töfrana við það að ákveða að verða eigin besta útgáfa.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is