Tónlist gerir daginn betri

Nýr liður í Tígli lítur dagsins ljós þessa vikuna, Listamaður mánaðarins. Þar munum við taka púlsinn á þeim fjölmörgu listamönnum sem Vestmannaeyjar skarta. Liðurinn er í umsjá Elías Inga Björgvinssonar og gefum við honum því orðið.

Nú þegar páskarnir nálgast og fermingar eru á næsta leiti ákvað Tígull að taka púlsinn á organista Landakirkju, Kitty Kovács. Hún er einnig bæjarlistamaður Vestmannaeyja ársins 2023 og vel að þeim titli komin enda mikilvægur hlekkur í tónlistarlífi Eyjamann. Hún fluttist til Vestmannaeyja árið 2011 og tók þá við sem organisti í Landakirkju af Guðmundi H. Guðjónssyni. Í dag hefur Kitty mörgum hlutverkum að gegna hér í Eyjum. Hún starfar sem píanó- og tónfræðikennari við Tónlistarskóla Vestmannaeyja, er kórstjóri kórs Landakirkju og Kvennakórs Vestmannaeyja auk þess sem hún kemur að fjölda tónlistarviðburða yfir árið. Fyrir páskana munu þær stöllur, Kitty og Guðný Charlotta, halda tónleika þar sem þær spila fjórhent á píanó og verður mjög áhugavert að heyra hvernig það kemur út. Greinarhöfundur settist niður með Kitty til þess að kynnast henni betur og hennar sögu.

 

Vantaði tónlistarkennara á Hvolsvelli

Kitty fæddist árið 1980 í Ungverjalandi og ólstu upp í borginni Győr þar í landi en sú borg er svipuð að stærð og Reykjavík. Í raun sá hún ekki fyrir sér að hún myndi nokkurn tíman flytjast frá Györ því þar var allt til alls og var hún mjög ánægð þar. En eftir tónlistarnám í háskóla fékk hún veður af því að það væri verið að auglýsa eftir tónlistarkennurum til þess að kenna við tónlistarskólann á Hvolsvelli. Maður spyr sig hvernig í ósköpunum berast slíkar fréttir til Ungverjalands en það vildi svo til að skólastjórinn þar í bæ var líka ungverskur og hann vantaði sárlega tónlistarkennara. Þannig að hann auglýsti í tónlistarskólum í Ungverjalandi eftir áhugasömum. Til allrar lukku fyrir okkur þá bárust fregnirnar til eyrna Kitty og hún hugsaði með sér „af hverju ekki?“ Hún sá enga góða ástæðu til þess að fara ekki og fluttist því til Íslands árið 2006 og hefur verið hér síðan. 

 

Fór á hverju sumri til Vestmannaeyja

Þar sem Kitty bjó á Hvolsvelli hafði hún útsýni í átt að Vestmannaeyjum og sá eyjarnar fögru á hverjum degi þaðan. Í fyrstu hélt hún að þetta væru bara fjöll í fjarska en vinkona hennar upplýsti hana um að þetta væru nú eyjar og ekki fjöll. Þegar hún heimsótti svo Vestmannaeyjar í fyrsta sinn varð hún heilluð af náttúrunni og er þetta fallegasti staðurinn á Íslandi að hennar mati. Eftir þessa heimsókn urðu Vestmannaeyjar fastur áfangastaður á hverju sumri og tilhlökkunin hjá henni var mikil fyrir ferðalaginu hingað.

 

Varð organisti á Íslandi

Eftir dvöl sína á Hvolsvelli fluttist Kitty til Víkur í Mýrdal og vann þar um hríð sem organisti en fyrir eins athafnasaman listamann og hana þá þurfti hún fleiri og fjölbreyttari verkefni en voru í boði þar. Hún fluttist því til Reykjavíkur til þess að vinna sem tónlistarkennari við Tónlistarskólann í Garðabæ og til að vera nær menningarlífinu. Þegar þarna er komið við sögu var árið 2008 og skall kreppan á með tilheyrandi samdrætti í menningarlífinu. Þessi ár í Reykjavík voru henni ekki auðveld en einhvern veginn rataði sama spurningin til hennar úr mismunandi áttum. „Af hverju ferðu ekki til Vestmannaeyja, það vantar organista þar?“ Hún vissi ekki hvernig væri að búa hér en þekkti samt vel til Eyja með árlegu ferðunum sínum. Það kom svo til að hún leysti af nokkra sunnudaga hér í Eyjum og árið 2011 var hún fastráðin organisti við Landakirkju. Samhliða því hlutverki lærði hún orgelleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar og lauk prófi þaðan árið 2017. Kitty hefur spilað reglulega á orgelsumri í Hallgrímskirkju við góðar undirtektir og í ár mun hún halda lokatónleika sumarsins sunnudaginn 25. ágúst í Hallgrímskirkju, frekari upplýsingar má finna á heimasíðu þeirra. 

 

Var valin inn í tónlistarskólann

Á bernskuheimili Kittyar stóð píanó í stofunni en enginn spilaði á það. Sömu sögu var að segja heima hjá ömmu hennar og afa, þar var annað píanó en þetta voru meira eins og húsgögn en hljóðfæri. Hún var samt alltaf forvitin um píanóin og þegar kom að því að hún átti að velja hljóðfæri til að læra á í tónlistarskólanum var valið deginum ljósara, píanóið var númer eitt. Fyrirkomulagið í Ungverjalandi á þessum tíma var þannig að tónlistarkennarar gerðu skimanir í fyrsta bekk grunnskóla og valin voru efnileg börn til þess að stunda tónlistarnám í tónlistarskólanum. Kittý var í þessum hópi en áður en þau fengu að velja sér hljóðfæri þá þurftu þau að læra tónfræði og nótur fyrst. Þetta auðveldar lærdóminn og spilamennskuna á hljóðfærið. Hún fetaði menntaveginn með píanóið og tónlistina að leiðarljósi alla leið í háskóla þar sem hún útskrifaðist árið 2003 úr tónlistardeild Széchenyi István háskólans í Győr.

 

Hugfangin af Bach frá barnsaldri

Aðgangur að tónlist var allt annar en hann er í dag þegar Kittý var að alast upp. Það var bara útvarp, kassettur og geisladiskar. Stundum ef það var keppni í tónlistarskólanum og hún vann þá mátti hún velja sér geisladisk í verðlaun. Þá valdi hún ávallt klassíska tónlist alveg frá því að hún var barn, og í flest skiptin var það Johann Sebastian Bach sem varð fyrir valinu. Bach er mikill snillingur að hennar mati og snilldin felst í því að hann lætur margar raddir og hljóðfæri hljóma eina undursamlega heild. „Málið er að hver rödd og hvert hljóðfæri eru jafn mikilvæg í heildinni. Ef þú hlustar á eina rödd eða eitt hljóðfæri eitt og sér þá hljómar það líka fallega,“ segir Kittý. Hún hefur farið á marga ótrúlega tónleika víða um Evrópu en það eftirminnilegasta sem hún hefur gert var þegar hún fór til Leipzig á Bach tónlistarhátíðina. Hún var þar í tvo daga og fór á eins marga tónleika og hún gat. Henni leið eins og hún væri komin heim, því andrúmsloftið í borginni var svo notalegt og allir komnir saman til þess að hlusta á verk Bach. Kitty lýsir þessu eins og ættarmóti hjá Bach fjölskyldunni, bara gleði og gaman.  

 

Tónlist gerir daginn betri

Þegar Kitty er spurð um hvað drífur hana áfram í að spila, æfa og skapa tónlist þá er svarið einfalt, „þegar ég spila tónlist þá verður dagurinn bara betri.“ Tónlistin nærir það andlega í manneskjum, því við erum ekki vélar sem ganga á fyrir olíu heldur þurfum við annað sem upphefur andann og opnar nýjar dyr og hugarheima. „Stundum hlusta ég á eitthvað verk, og það þarf ekki að vera langt kannski bara fjórar mínútur, en það gerbreytir hjá mér hugsun og tilfinningu,“ segir Kittý. Áhrifamáttur tónlistar er vanmetinn að hennar mati, sem og mikilvægi þess að læra um tónlist og á hljóðfæri. „Þegar maður spilar á hljóðfæri þá fær persónuleikinn tækifæri til þess að þroskast og tjá sig á annan hátt en venjulega.“ Það sem gefur henni mest við æfingar er þegar hún rekst á vandamál og erfiðleika í tónverkinu, en að sýna þrautsegju og finna lausnina, æfa hana og heyra afraksturinn gerir þetta allt þess virði. Kittý brosir við þegar hún segir frá þessu.   

 

Fjölbreyttir tónleikar á döfinni

Það eru ávallt mörg járn í eldinum hjá Kitty og eiginlega of fáir klukkutímar í deginum finnst henni. Næstu tónleikar á dagskrá eru fjórhentir píanótónleikar með Guðnýju Charlottu. Áskorunin þar er að tveir píanóleikarar sem spila á sama píanóið þurfa að hljóma sem einn. Þessir tónleikar fara fram miðvikudaginn 27. mars, daginn fyrir skírdag í safnaðarheimilinu. Einnig æfir hún fyrir sellótónleika sem verða í lok maí í Eldheimum og svo auðvitað eru vortónleikar Kvennakórsins á næsta leiti. Þegar hún er spurð um hver sé besti tónleikasalurinn í Vestmannaeyjum þá er hún ánægðust með hljómburðinn í safnaðarheimilinu en minnist einnig á það að það sé kominn tími á að uppfæra flygilinn í safnaðarheimilinu sem og orgelið. „Hljóðfærin eru svo mikilvæg til þess að tónlistin hljómi sem allra best í eyrum áheyrenda,“ segir Kittý. 

Fyrir þá sem aðhyllast slík fræði, þá mætti segja að örlög Kittýar og Vestmannaeyja hafa verið samofin frá því að hún kom fyrst til Íslands og horfði í átt að Eyjum frá Hvolsvelli. Fjöllin í fjarska, ferðasumrin og fyrirspurnir um organista leiddu hana til Eyja og vonandi verður hún sem allra lengst hjá okkur. 

Viðtal: Elías Ingi Björgvinsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search