Tölublað 30 er mætt á eyjuna eftir að starfsmaður á plani stökk í 17:00 ferð Herjólfs til að sækja blaðið í höfuðstöðvar Flugfélags Ernis því jú það var þoka í gær og því ekkert flug, ekki vildum við taka áhættuna á að þið kæru lesendur okkar mynduð ekki fá blaðið í hendur í dag og á morgun eins og allar vikur. Upp á land kl 17:00 og til baka með 23:15 ferðinni. blessunarlega var Landeyjarhöfn þá er þetta hægt eintóm hamingja með Herjólf okkar. Hann fær hrós vikunnar frá okkur á Tígli fyrir að gera sitt besta alltaf. ( Þá erum við auðvitað að tala um alla sem koma að þessari vinnu við að láta hann virka svona vel ) Annars erum við Tígul stelpur hoppandi kátar með nýja brotið á blaðinu og nýja útgáfu á vefnum okkar tigull.is
Lífið á sjónum fer vel af stað og taka allar áhafnir meira en vel í þetta verkefni okkar. Við höldum áfram að vera óháður og frjáls miðill og miðla til ykkar allri gleðinni sem er um að vera í bænum okkar fallega og það algjörlega frítt.
Munið svo að þið eruð partur af þessu öllu saman með okkur og tökum við fagnandi á móti öllum með hugmyndir af fróðlegu, skemmtilegu, gefandi efni og frásögnum. Svo ef það lumar pistlahöfundur í þér, hafðu þá samband.
Kveðja á ykkur Kata Laufey og Lind Ritstjórar, auglýsingastjórar, ræstingarstjórar, starfsmaður á plani, grafískir hönnuðir, útgefendur, mæður, eiginkonur og síðast enn ekki síst eigendur.
