05.05.2020
Fyrirmynda íbúi í Vestmannaeyjum ( sem vill ekki láta nafn sitt getið hér ) tók sig til og fyllti tvö fiskikör af rusli út í Löngu. Tígull náði tali af honum en hann fór út í Löngu dagana 28. og 29. apríl síðastliðnn og safnaði saman rusli sem þar var.
Ég var búinn að sjá kar í fjörunni í dálítinn tíma og ákvað því að taka með mér tappa til að setja í karið, byrjaði svo að tína rusl í það, en það fylltist mjög fljótlega af allskonar drasli meðal annars voru 26 dauðir fuglar (einn Skarfur, einn Svartfugl, tveir Mávar og 22 Æðakollur)
Þar sem nóg var eftir af drasli fór ég og talaði við strákana hjá Berg Huginn og fékk lánað hjá þeim annað kar, þá hafði ég einnig samband við Björgunarfélagið og þeir voru svo almennilegir að koma á tuðru með karið til mín og fóru þeir síðan með bæði körin að löndunarkrananum og hífðu þeir körin í land.
Enn er þó nokkuð af rusli úti í Löngu en það eru aðallega járnrör, vírar og aðrir þungir hlutir sem gott væri að fjarlægja.
Á meðan ég var að hreinsa svæðið kom þó nokkuð af fólki út í Löngu, bæði í heilsubótagöngu sem og fólk sem lagðist í sólbað og synti í sjónum, allt þetta fólk talaði um hvað aðgengið út í Löngu væri slæmt og að það ætti ekki að vera mikið mál að laga aðgengið til dæmis með jarðvegs-uppfyllingu upp við Heimaklett þannig að fært væri þangað bæði á flóði og fjöru segir viðmælandi okkar að lokum.