Tinna Tómasdóttir

Fjölskylda: Gift Dadda Mar og saman eigum við þrjú börn Emelíu Ögn, Nóa og Söru Björk, eigum einnig tengdasoninn Steinar Mána.

Hvaða hefðir tíðkast í fjölskyldunni í kringum jólin? 

Þegar við bjuggum í Danmörku var hefð hjá okkur að fyrsta sunnudag í aðventu fórum við í julegløgg og æbleskiver hjá nágrönnum okkar. Á aðventunni var farið í miðbæ Odense og jólaljósin skoðuð, það var alltaf mikil ljósadýrð. Einnig vorum við með danskan julefrokost með vinum okkar um miðjan desember. Á jóladag vorum við í náttfötum fram eftir degi og fórum svo í göngutúr saman þar sem ekki voru nein fjölskyldujólaboð og svo fórum við á jólaball hjá Íslendingafélaginu á annan í jólum og versluðum íslenskt nammi í sjoppunni. Á gamlárskvöld vorum við svo með vinum okkar. Vinir og nágrannar voru svolítið okkar fjölskylda þegar við bjuggum úti og það sköpuðust hefðir með þeim. 

Eftir að við fluttum heim til Íslands hafa hefðirnar aðeins breyst og eru svo sem ekkert mjög fastar hjá okkur. En við förum þó alltaf á aðfangadag með tengdapabba, Mara Pípó, í kirkjugarðinn þegar farið er að rökkva og kveikjum á kertum hjá ástvinum – um leið og við söknum þeirra sem ekki eru með okkur lengur þá gefur það svo hlýtt í hjartað.

Á aðfangadag er hefð að Daddi eldar matinn svo er hangikjötsveisla á jóladag hjá tengdó og oft er vinahittingur á annan í jólum þar sem tekið er í spil. Á milli jóla og nýárs á Sara Björk afmæli og þá er hefð hjá okkur að bjóða okkar nánasta fólki í pylsupartý.

Einnig höfum við haft síðustu tvö ár dansk/islandsk julefrokost með vinum okkar í byrjun desember þar sem við höfum svolítið reynt að halda í danskar hefðir í mat og drykk. 

Gamlárskvöld er þó mitt uppáhald í kringum hátíðarnar. Þá erum við svo mörg saman og borðum uppáhalds jólamatinn minn sem er kalkúnn og þá er partý frameftir kvöldi þar sem bæði ungir og aldnir hafa gaman saman. 

Hvenær byrjið þið að setja upp jólaljós? 

Það er bara misjafnt. Áður fyrr var það oft ekki fyrr en fyrsta í aðventu eða fyrstu helgina í desember, en síðustu ár er ég farin að setja jólaljós í gluggana mun fyrr, jafnvel um miðjan nóvember. Mér finnst það notalegt og lýsir upp skammdegið. 

Hvenær er jólatréð skreytt? 

Það hefur líka breyst. Þegar við bjuggum í Danmörku vorum við með lifandi tré þannig að við röltum alltaf í Spar búðina í hverfinu í kringum 20.des og sóttum okkur jólatré og skreyttum í kjölfarið og þá mátti það ekki vera of snemma svo tréð myndi lifa fram yfir áramót. Eftir að við fluttum heim höfum við verið með alvöru tré og gervi 

en þá er það skreytt í byrjun eða um miðjan desember. Mér finnst dásamlegt að setja jólatréð upp í fyrra fallinu og leyfa því að njóta sín – það er svo mikið stofuprýði í kringum hátíðarnar.

Er mikill munur á hefðum núna og þegar þú varst lítil og hvað þá helst? 

Hefðirnar eru held ég bara mjög svipaðar, alla vega varðandi mat og veislur í kringum jólin. Undirbúningurinn er mjög svipaður og þegar við vorum lítil en kannski finnst mér helsti munurinn á því að ég er ekki að eltast við að gera „jólahreingerninguna“ eða baka fullt af sortum af smákökum. Jólin koma þó það sé ekki allt tipp topp.

Er eitthvað sem má alls ekki sleppa í kringum jólahátíðina?

Síðustu ár finnst mér jólin alveg vera að bresta á þegar ég hef farið á Stjörnuleikinn – hann gefur svo sannarlega gleði í hjartað. 

Svo finnst mér jólin endanlega vera komin þegar við fjölskyldan höfum farið í kirkjugarðinn og kveikt á kertunum og horft yfir garðinn í allri sinni ljósadýrð. Mér finnst það orðinn ómissandi partur af jólunum. 

Gleðileg jól. Njótið aðventunnar og samverunnar með fjölskyldunni. Það er tíminn sem við eigum saman sem skiptir máli þegar uppi er staðið – ekki allt það veraldlega.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search