Til mikils að vinna

– Teljum okkur geta komið í veg fyrir smit með öflugum smitrakningum –

Þrátt fyrir að mér finnist að barátta við vírus eigi að tilheyra löngu liðinni öld er það engu að síður veruleiki okkar í dag að berjast við kórónavírusinn og reyna að hefta útbreiðslu hans. Aðgerðastjórn almannavarna var virkuð 15. mars sl. og starfar á neyðarstigi enda hefur heimsfaraldri verið lýst yfir þar sem vaxandi og viðvarandi útbreiðsla smits er á meðal manna. 

Öll áhersla er á að hefta útbreiðslu veirunnar. Unnið er eftir viðbragðsáætlun almannavarna um heimsfaraldur þar sem sóttvarnalæknir og umdæmislæknir í hans umboði, Hjörtur Kristjánsson, spilar stórt hlutverk. Aðgerðir eru byggðar á sérfræðimati um útbreiðslu og varnir smitsjúkdóma. Þegar fyrsta smit greindist í Vestmannaeyjum bauð lögreglan hér fram aðstoð við smitrakningar. Fram að því hafði smitrakningum aðeins verið sinnt frá smitrakningateymi sóttvarnalæknis og almannavarna í samhæfingarmiðstöð í Reykjavík undir stjórn LRH. 

Starfsmenn embættisins í Eyjum líkt og á höfuðborgar-svæðinu hafa lagt mikið á sig til þess að smitrakning geti hafist um leið og greiningu nýrra smita er lokið. Það er áríðandi að stöðva mögulega smitað fólk sem er á ferðinni og setja það í sóttkví þegar ný smit hafa greinst. Þessu starfi hér er stýrt af rannsóknardeild embættisins og hefur gengið gríðarlega vel. Öll smit sem greinst hafa í Eyjum fara í smitrakningu hér. Í þessari vinnu eru menn hluti af smitrakningateymi almannavarna en allar niðurstöður eru keyrðar inn í gagnagrunn landlæknis. Margir lögreglumenn koma að þessu, vinnudagarnir eru langir en menn kveinka sér ekki. Með þessu fyrirkomulagi teljum við okkur geta komið í veg fyrir smit og því er til mikils að vinna. 

Lögreglan fær afar jákvæð viðbrögð frá fólki og oft mikið þakklæti. Það er gott að finna fyrir því. Við viljum benda fólki á að það getur haft samband við okkur hafi það verið í samskiptum við fólk sem hefur greinst smitað í gegnum netfangið vestmannaeyjar@logreglan.is 

Við erum rík þetta samfélag af harðduglegu og fórnfúsu fólki sem leggur mikið á sig til að láta hlutina ganga. Það á við um svo marga. Lögregluna, heilbrigðisstarfsmenn, sjúkraflutningamenn, starfsmenn Vestmannaeyjabæjar, starfsfólk skólanna, björgunarfélagið, Rauða krossinn, starfsfólk Herjólfs og allra innviða. Fólk stendur þétt saman því sameinuð ætlum við að sigra þennan ófögnuð sem COVID-19 er. 

Páley Borgþórsdóttir, aðgerðastjóri og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search