Jóhanna Lilja Eiríksdóttir er formaður Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja og er sjálf með aðstöðu í Hvíta húsinu. Hún er gift Hermanni Inga Long og eiga þau þrjú börn, Gunnar Hreindal Pálsson, Lárus Garðar Long og Eriku Rún Long ásamt einu barnabarni Kamillu Dís Gunnarsdóttur. Við kíktum á Jóhönnu í Hvíta húsið og tókum létt spjall við hana.
Jóhanna vinnur hjá Símenntunarmiðstöðinni Visku sem kennari og ýmislegt annað sem til fellur, hefur einnig verið að leysa af í Húsasmiðjunni.
Hún er með BA próf í íslensku frá Háskóla Íslands, kláraði einnig Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði og hefur tekið einhvern hluta af smiðnum og húsgagnasmíði. Ætlaði að bæta við sig bólstrun en hefur ekki enn fengið samning, þannig að það bíður betri tíma. Einnig er hún formaður Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja.
Jóhanna er alin upp á Fáskrúðsfirði, bjó síðan á Norðfirði, Seyðisfirði, Reykjavík og í Þorlákshöfn á tímabilinu 1989 til 1996, en flutti til Eyja árið 1996, eftir að hún kynntist manninum sínum.
Hvernig líst þér á aðstöðuna í Hvíta húsinu?
Aðstaðan er frábær og gaman að þessi hugmynd sem ég labbaði með á kostningaskrifstofur flokkanna fyrir síðustu kostningar hafi komist í gegn. Fljótlega kom síðan Jónína Björk Hjörleifsdóttir og Laufey Konný Guðjónsdóttir með mér í viðræður við bæinn. Sem síðan þróaðist í viðræður við Visku og Þekkingarsetrið, þar sem Miðstöðin hentaði illa fyrir okkur.
Ertu búin að koma þér alveg fyrir þar?
Já búin að koma mér fyrir og hlakka til að vinna með fólkinu sem er í Hvíta húsinu.
Hvað ert þú að brasa við í Hvíta húsinu?
Ég hef aðallega verið að vinna með roð, leður og ull. Ég hanna t.d töskur, herraslaufur úr roði og aðra fylgihluti.
Er hægt að skoða vörurnar þínar einhvers staðar á netinu?
Ég er með facebooksíðu sem heitir Jóle hönnun, hún hefur ekki verið mjög virk í eitt ár núna þar sem aðstöðuleysi varð til þess að ég hef lítið gert annað en sérstakar pantanir. En núna á eftir að koma meira inn.
