16.01.2020
Verkefni bíða þyrlunnar á Flateyri og Ísafirði meðal annars stendur til að flytja mannskap og búnað milli Ísafjarðar og Flateyrar. Með í för eru einnig formenn stjórnarflokkanna sem ætla að kynna sér aðstæður auk forsvarsmanna helstu viðbragðsaðila.
Þá er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga með í för auk fulltrúa Rauða krossins sem kemur til með að aðstoða við skipulagningu á áframhaldandi stuðningi við íbúa.
TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór síðdegis í gær í sjúkraflug til Flateyrar og á Ísafjörð auk þess sem hún flutti björgunarsveitarfólk, sérfræðinga, búnað og vistir síðar um kvöldið.
Í morgun fór áhöfnin á TF-GRO vestur með fulltrúa Umhverfisstofnunar og Veðurstofunnar vestur.
Til að gera þyrlunni betur kleift að lenda við bensínstöðina á Flateyri voru tveir ljósastaurar felldir í gær til að búa til ákjósanlegan lendingarstað fyrir þyrluna.
Þyrlan verður til taks fyrir vestan næstu klukkutímana en TF-GRO lenti á Flateyri klukkan 15:00.
Einnig er varðskipið Þór er komið að bryggju á Flateyri en áhöfnin hefur sinnt margvíslegum verkefnum undanfarinn sólarhring. Í gær voru björgunarsveitarmenn, áfallateymi og aðrir viðbragðsaðilar fluttir frá varðskipinu í land með léttbátum.
Í morgun aðstoðaði áhöfnin starfsmenn Vegagerðarinnar að lýsa upp hlíðina með ljóskösturum til að kanna snjóalög. Þá hefur áhöfnin flutt mannskap, búnað og vistir á milli staða í dag auk þess sem hún hefur aðstoðað við að ná olíutanki upp sem lá utan í varnargarðinum. Hann var hífður upp á bryggju.
Til að varðskipið kæmist að bryggju þurfti að senda léttbát með dýptarmæli sem skannaði höfnina til að athuga hvort einhver fyrirstaða væri í höfninni. Varðskipið verður áfram til taks við Flateyri.
Von er á sérfræðingi frá Umhverfisstofnun ásamt hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar um borð í skipið vegna undirbúnings við hreinsun hafnarinnar á morgun.
Greint er frá þessu á vef Landhelgisgæslunnar og myndir eru einnig þaðan.