Miðvikudagur 28. september 2022

Þúsund andlit Heimaeyjar – Sýningin opnar kl. 16:00 í dag

Bjarni Sigurðsson sýnir í Einarsstofu:

„Gjörningurinn klárast með því að ég gef verkið frá mér til bæjarins. Þetta eru fimm stórar myndir. Þar af fjórar ýmist með 370 og 371 andlit sem gera 1483 andlit. Svo er eitt mósaíklistaverk sem fólk verður að koma að sjá til að upplifa. Þar sést Heimaklettur í fjarlægð en þegar komið er nær sjást öll andlitin 1483 sem ég tók myndir af í verkefninu 1000 andlit Heimaeyjar,“ segir Bjarni Sigurðsson, ljósmyndari og matreiðslumeistari um sýningu sem hann opnar í Einarsstofu í dag föstudag, kl.16:00 – 18:00.

En sagan er ekki öll. „Ljósmyndasafn bæjarins fær gagnagrunn að þessu öllu til vörslu og erfir hann þegar ég hrekk upp af. Einnig undirskrifað samþykki allra sem eru á myndunum. Myndirnar verða aðgengilegar á netinu þar sem fólk getur skoðað þær og nælt í þær í stafrænu formi. Prentaðar hágæðamyndir er svo hægt að panta hjá mér.
Líka verð ég með myndir til að sýna það sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina og nokkrar andlitsmyndir úr stóra verkefninu. Svarthvítar og valdar af handahófi.“

 

 

Íris tekur á móti

Áður en sýningin hefst afhendir Bjarni Vestmannaeyjabæ verkið í heild sinni. „Þetta er algjört lokauppgjör á Þúsund andlitum Heimaeyjar. Heimasíðu verkefnisins verður lokað en það verður áfram á Facebook. Þetta byrjaði á sjómannadagshelginni í fyrra, að ég bauð fólki í myndatöku og hátt í 1500 svöruðu kallinu. Var hugsað sem goslokaverkefni og fékk ég styrk frá goslokanefnd. Var of seinn að fá inni fyrir
sýninguna í fyrra en fæ í staðinn að vera með hana í mánuð í Safnahúsinu hjá Kára.
Frá sjómannadegi til gosloka og er sýningin opin á opnunartíma Safnahúss, kl. 10-17 alla daga.“
Innblásturinn sækir Bjarni til ekki ómerkari manna en Rembrants og annarra listmálara og þekktra portrait ljósmyndara. „Allar prentaðar á striga, límdar á álplötur og innrammaðar af tengdapabba, Herði Þórðarsyni,“ segir Bjarni sem hlakkar til að sýna afraksturinn. „Þetta hefur verið mikil vinna og viss léttir að sjá fyrir endann á þessu ristastóra verkefni.“
Bjarni byrjaði snemma að taka myndir og þegar leiðin lá til Eyja heillaðist hann af þeirri veislu sem Vestmannaeyjar eru fyrir auga og ljósop. Hann tók því fagnandi og hefur verið duglegur að munda myndavélina eins og við höfum séð þegar hann var með ljósmyndasýningu í Einarsstofu 2019.

Bjarni Sigurðsson er yfirmatreiðslumaður á Sjúkrahúsinu. Bjarni útskrifaðist frá Hótel- og veitingaskóla Íslands árið 1994 og lauk meistaraprófi árið 1999. Hann hefur rekið og starfað á ýmsum veitingastöðum eins og Café Opera og Lækjarbrekku. Hann starfaði lengst á Menu Veitingum árin 2007- 2017 sem yfirmatreiðslumeistari. Bjarni hefur einnig lokið námi í margmiðlun og ljósmyndun.

Kona hans er Kristjana Margrét og foreldrar hennar eru Hörður Þórðarson og Anna María Kristjánsdóttir. Bjarni hefur mikinn áhuga á ljósmyndun. „Ég hef verið að taka myndir frá því ég var polli en tók mér pásu þegar maður lagði áherslu á að koma sér áfram í kokkastarfinu,“ sagði Bjarni sem ekki aðeins féll fyrir Eyjastúlkunni Kristjönu heldur einnig fyrir heimahögum hennar.

 

Alltaf að læra

Þetta er hans fyrsta einkasýning og hann hlakkar til. „Ég hafði bæði gagn og gaman af náminu í Iðnskólanum en maður er alltaf að læra. Verður aldrei fullnuma og það er kannski það skemmtilega við ljósmyndun. En á sýningunni fær fólk tækifæri til að sjá
það sem ég hef verið að gera.“

Fjölskyldan keypti húsið af Finni teiknikennara í Búhamrinum sem nýtti bílskúrinn sem málverkastúdíó. „Bílskúrinn hefur nú fengið nýtt hlutverk, nú er ég kominn með fullbúið ljósmyndastúdíó. Þar er ég með ljósin og bekkinn hans Óskars heitins Björgvinssonar, ljósmyndara sem starfaði hér í mörg ár.“

Sýningin verður opin í Safnahúsi:
Föstudagur 16:00 – 18:00
Laugardagur 13:00 – 17:00
Sunnudagur 13:00 – 17:00

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is