Ísfisktogarinn Bergur VE hélt til veiða sl. mánudag frá Eyjum að loknu þjóðhátíðarstoppi og var áhöfnin hress og glöð eftir góða helgi.
Skipið kom síðan að landi á miðvikudaginn og landaði fullfermi af þorski og ýsu. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið hreint ljómandi vel.
„Við byrjuðum á Pétursey og Vík og þar var þrumuþorskveiði. Aflinn var svolítið ýsublandaður. Síðan var haldið á Brekableyðuna og þar tekin ýsa. Við höldum út á ný í fyrramálið ( föstudagsmorgun) og þá er það karfi sem er á dagskránni. Við munum væntanlega byrja á Sneiðinni sunnan við Surt og þar ætti að vera djúpkarfi. Annars er verið að spá einhverjum bræluskít en við sjáum til með það,“ segir Jón.
Frétt frá svn.is