12.10.2020
Nú hafa þrír veitingastaðir lokað tímabundið vegna ástandsins í þjóðfélaginu.
Tanginn var fyrstur til að loka þann 4.október þar á eftir kom Einsi Kaldi þann 5.október og nú síðast ÉTA sem lokaði tímabundið þann 10.október.
Tilkynning frá Tanganum:
Í ljósi þeirra ótryggu og sérstöku aðstæðna sem ríkja um þessar mundir hafa forsvarsmenn Súlnaskers ehf. ákveðið að loka veitingastaðnum Tanganum tímabundið. Síðasti opnunardagur er laugardagurinn 3. október.
Þessi ákvörðun er fyrst og fremst tekin með tilliti til rekstraröryggis og skuldbindinga félagsins, einnig verður lokunin nýtt til lagfæringa og endurbóta sem fyrir liggja á veitingastaðnum.
Við þökkum ánægjuleg viðskipti undanfarin fjögur ár, og hlökkum til að taka á móti okkar góðu viðskiptavinum þegar rekstrarumhverfið er orðið öruggara.
Virðingarfyllst
Hafdís Kristjánsdóttir
Berglind Kristjánsdóttir
Tilkynning frá Einsa Kalda:
Elsku vinir
Heilsa og öryggi starfsfólks okkar og gesta er okkur afar mikilvæg og fylgjum við fyrirmælum yfirvalda varðandi samkomubann vegna covid-19. Það er því miður ekki rekstrargrundvöllur fyrir okkur þegar aðeins 20 mega koma saman og verður því veitingastaðurinn lokaður næstu tvær vikurnar.
Þetta er verkefni sem allir þurfa að vinna saman og vonandi getum við tekið á móti ykkur í mat & drykk fyrr en seinna.
Farið vel með ykkur
Einsi Kaldi & starfsfólk
Tilkynning frá ÉTA
Þetta verður síðasta helgi ÉTA í bili sem við fjölskyldan verðum með opið útaf mikilli óvissu og ástandi vegna COVID19.
Við ætlum að skoða breyttar áherslur og meta stöðuna á komandi vikum en það er ekkert leyndarmál að reksturinn gengur ekki vel eins og hjá mörgum í okkar geira bæði hér í Eyjum og víðar.
Við viljum endilega hvetja Eyjamenn að styðja við smáfyrirtækin í þjónustu sem eru í Eyjum, þau þurfa á ykkur að halda nú meira en nokkru sinni áður.