Geir Reynirsson skrifar:
Þrettándinn – Heimildarmynd
– Hvað sjáum við í myndinni?
– Hvernig mynd er þetta??
Nú þegar Heimildarmyndin er tilbúin til sýninga hafa margir spurt mig; Hvað er ég að fara að horfa á?
Þegar Sighvatur Jónsson bað mig um að koma að þessu verkefni með sér, sem sagt að taka upp undirbúning og framkvæmd Þrettándagleðinnar í Eyjum, sagði ég strax: “Og hvernig ætlar þú eiginlega að nota þetta efni?”
Og þessi spurning er búin að fylgja okkur í 5 ár. Þetta er vandmeðfarið efni.
Til þess að gera efninu skil þarf auðvitað að sýna hverskonar þrekvirki 200 sjálfboðaliðar vinna til þess að þetta ótrúlega ævintýri geti endurtekið sig ár eftir ár.
Og það verður ekki gert öðruvísi en að sýna hvað gerist á bak við tjöldin.
Sjálfur hef ég alla tíð leyft börnunum mínum að halda í trúna á þessar verur sem heimsækja okkur ásamt jólasveinunum á þrettándanum eins lengi og hægt hefur verið.
Þess vegna langar mig að benda foreldrum barna, sem enn halda í trúna, á að þarna sést ýmislegt sem aldrei hefur verið sýnt áður og hulunni svipt af mörgu. ( þó ekki öllu)
Enda er ekki hægt að heiðra fólkið, sem sumt hefur komið að hátíðinni í áratugi án þess að greina frá sögunni og framkvæmdinni – það eru verðmætar heimildir.
Alveg eins og foreldrar myndu ekki senda börn sín ein á þrettándagleðina, ættu þau ekki að senda þau ein á þessa mynd þ.e ef foreldrarnir vilja á annað borð að börnin sjái hana.
Myndin er byggð upp á viðtölum og myndefni um sögu, udirbúning og framkvæmd þrettándans. Þetta er áhugavert og skemmtilegt efni og tími til kominn að skrásetja þetta magnaða sjónarspil.
Að þessu sögðu vona ég að sem flestir sem komnir eru til vits og ára skelli sér í bíó og sjái myndina